Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[18:15]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir ágætisræðu. Þetta er töluverður áfellisdómur, þessi skýrsla. Ég geri ráð fyrir að nefndarfólk í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafi farið ítarlega yfir það og það verði umræða um þetta. Eins og kom fram hjá hv. þingmanni þá er þetta vandi sem er erfiður á svo margan hátt. Þetta fólk hefur þurft að glíma við fordóma lengi vel. Vandinn getur verið býsna lítið sýnilegur og væntanlega eru geðheilbrigðisvandamál stundum þannig að þau geta magnast ef fólk fær ekki athygli og hjálp og aðstoð nógu snemma.

Ég hjó eftir því að hv. þingmaður vitnaði í hæstv. fjármálaráðherra, sem blés til sóknar þegar hann var spurður út í mönnunarvanda og fjárhagsvanda heilbrigðiskerfisins og talaði um sókn í geðheilbrigðismálum. Nú er það þannig að flokkur hv. þingmanns, ásamt fleiri flokkum, fékk samþykkta hér þingsályktunartillögu um að niðurgreiða sálfræðiþjónustu, sem er væntanlega eitt fyrsta stig þess að fólk lendi ekki í meiri vanda samanlagt. Er þingmaðurinn sammála mér um að það sé hálfgert hjóm þegar hæstv. ráðherra talar um sókn þegar ríkisstjórnin hefur ekki einu sinni getað orðið við þeirri fjárþörf og ósk um fjárútlát sem allt Alþingi, allir þingmenn og allir ráðherrar samþykktu bara fyrir nokkrum mánuðum síðan?