Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[19:27]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir. Það er alveg hárrétt sem hér er nefnt. Við verðum að passa okkur á því að byggja kerfið þannig upp að það sogist ekki bara allt inn á einn vinnustað. Kerfið þarf að vera víðara og fleiri mega koma inn á ákveðna þætti þess en bara ríki eða sveitarfélög, það geta verið félagasamtök eða fyrirtæki, en þá með því fororði að tryggt sé að eftirlit með þeim einkarekstri sé gott og það sé alveg skýrt hvers konar þjónustu verið er að kaupa, á hvaða verði og það allt saman. Það myndi auðvitað gera starfsumhverfið allt meira aðlaðandi ef einhver samkeppni væri um þetta inni í kerfinu.

Mig langaði líka að spyrja hv. þingmann um annað. Ríkisendurskoðun vekur sérstaka athygli á því að ákveðin mismunun er innbyggð í geðheilbrigðiskerfið á Íslandi og ljóst sé að ekki sitji allir við sama borð. Þetta höfum við alveg vitað hvað varðar t.d. búsetu, aðgengi að þjónustu er misgott. Það vill enginn hafa það þannig en þannig er það engu að síður. En hjá Ríkisendurskoðun er líka talað um að þetta snúist einnig um efnahag og tegund geðvanda, að um sé að ræða mismunun út frá efnahag, tegund geðvanda og búsetu. Mismunun felst einnig í því að tilteknir hópar lenda á svokölluðu gráu svæði og fá ekki þjónustu við hæfi, m.a. vegna óljósrar ábyrgðar og kostnaðarskiptingar, skorts á fjármagni, mönnunarúrræða eða af öðrum ástæðum.

Ég les þennan texta ofur einfaldlega þannig að við séum einhvern veginn búin að byggja upp kerfi, án þess að við höfum ætlað okkur það, sem tryggir að fólki sé mismunað. Það er nákvæmlega þannig sem kerfið virkar. Mismunun er innbyggð í kerfið sjálft. Ég ætlaði að spyrja hv. þingmann hvort hann geti lesið það sama út úr skýrslunni og ég hvað þetta varðar, þ.e. að þetta snýst ekki bara um búsetuna heldur líka geðvandann, hvers eðlis hann er. Þetta er efnahagurinn, ábyrgðarskiptingin á milli ríkis og sveitarfélaga gerir það að verkum að sumir fá ekki þjónustu og þar fram eftir götunum. Ég spyr hvort þetta sé kannski stóra áhyggjuefnið í skýrslunni.