Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[19:32]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og tek undir með honum þegar hann talar um að þessi skýrsla sé áfellisdómur, því að það er hún svo sannarlega. Það má vera að ég og hv. þingmaður séum ekki sammála um hvernig eigi að vinna úr skýrslunni en hún dregur alla vega fram hvað við búum við í rauninni við slæmt kerfi þegar kemur að geðheilbrigðismálum. Það hefur verið þannig að þeir sem glíma við geðrænan vanda hafa ekki fengið leiðsögn í gegnum kerfið. Það vantar að skilgreina leið notenda í gegnum kerfið. Það er kannski skiljanlegt að það reynist flókið vegna þess að það eru mjög margir aðilar sem bjóða fólki upp á þjónustu og þeir sem glíma við geðrænan vanda eru kannski búnir að leita hingað og þangað áður en þeim er leiðbeint eða þeir lenda á einhverjum sem getur í rauninni hjálpað þeim. Það sem ég held að geti verið partur af þessum vanda er að heilbrigðisyfirvöld hafa ekki yfirsýn, þau vita ekki hver þjónustuþörfin er þannig að það verður erfitt að gera samninga um þjónustu. Það er svo mikil hætta á því þegar svona er að þeir sem vilja selja ríkinu þjónustu séu þeir sem skilgreina þarfirnar, koma með þjónustusamninginn og segjast þekkja hlutina vel og skilgreina þarfirnar og ríkið kaupir. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sjái ekki fyrir sér að í kerfinu sé sóun að þessu leyti líka.