Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[20:00]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar til að halda aðeins áfram með þessa umræðu um VIRK. Eins og fram hefur komið fyrr í umræðunni í dag þá fékk ég svör frá félags- og vinnumarkaðsráðherra á dögunum um nýja einstaklinga sem hafa skráð sig í þjónustu VIRK frá 1. janúar 2021 til 1. apríl 2022. Þar fannst mér mjög athyglisvert að af þeim 2.739 nýskráningum á þessum tíma voru 446 eða 16,3% heilbrigðisstarfsfólk eða starfsfólk sem vinnur við félagsþjónustu, svo sem hjúkrun, umönnun eða meðferð. Við vitum að það ríkir mönnunarvandi í öllu kerfinu og líka það sem varðar geðheilbrigðismál og það er mikið álag. Það skiptir miklu máli að reyna einhvern veginn að halda fólki inni sem er með reynslu, um leið og við reynum að hvetja til þess að nýtt fólk komi inn. Þá er það auðvitað menntunin sem skiptir máli og þó að það þurfi að gera þar átak þá tekur það auðvitað tíma að mennta fólk. Það hefur ekki alltaf verið í boði, eins og fram kemur í þessari skýrslu, t.d. meistaranám fyrir hjúkrunarfræðinga, svo dæmi séu tekin. En ég vil spyrja hv. þingmann hvort það hún sjái fyrir sér að það þurfi að setja einhverja aðra hvata inn í kerfið til að laða fólk að störfum í heilbrigðisþjónustu yfir höfuð og kannski ekki síst geðheilbrigðisþjónustu eins og við erum að ræða hér.