Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[21:18]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Hann ræðir hér mjög mikilvægt mál sem við eigum sannarlega að finna leiðir til að leysa og er mjög mikilvægt. En á hinn bóginn langar mig bara að koma með dæmi, það eru u.þ.b. 25 ár núna síðan ég kom fyrst til starfa inn í grunnskóla á Íslandi. Þá kom sálfræðingur í heimsókn þrisvar á ári og hann kom úr öðrum landshluta og heimsótti örfáa skóla og þjónustaði kannski þrjá nemendur. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og fyrst og fremst er miklu meiri þekking meðal starfsmanna skólanna á því hvernig á að mæta ólíkum einstaklingum vegna þess nú kemur fagfólkið, sem kemur að greiningunum, vissulega, líka að upplýsingamiðlun til starfsmanna skólanna og það eru svo miklu fleiri í skólunum sem kunna að mæta einstaklingum með einhverfu, með ofvirkni og athyglisbrest eða athyglisbrest en án ofvirkni o.s.frv., þannig að að mörgu leyti hef ég minni áhyggjur af hverjum og einum einstaklingi en hér áður. Hins vegar er mikilvægt að allir geti fengið aðgang að þeim sérfræðingum og þeim stuðningi sem þeir þurfa á að halda og það er auðvitað það sem farsældarlögin eiga m.a. að greiða úr, að allir þeir sem mögulega þurfa fái stuðning í sínum skóla eða hjá sinni heilsugæslu og kannski færri þurfi að leita í sérhæfðari úrræði en eigi þá greiðari aðgang þangað.