Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[22:22]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Loga Einarssyni, 5. þm. Norðaust., kærlega fyrir fyrirspurnina. Ég tek undir það með honum að geðheilbrigðisteymi séu nauðsynleg og þau eru góð og þau eru að virka og sérstaklega úti á landi. Hv. þingmaður nefnir að hann hafi rekið fyrirtæki og eitthvað minna en fjölskyldufyrirtækið sem ég hef rekið. Ég vil bara minna á að stærð fyrirtækjanna skiptir ekki öllu máli, reksturinn er alltaf sá sami. Ef ég man rétt þá hefur geðlæknir, læknir með það sérsvið, ekki útskrifast á Íslandi síðan 2018, að ég held. Ég held að nú séu ekki nema fjórir í því námi. Það er einnig skortur á hjúkrunarfræðingum með þá sérhæfingu. Nám er að fara af stað í haust, að ég held, við Háskólann á Akureyri og eru yfir 20, ef ég man rétt, búnir að skrá sig í það.