Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[22:30]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal verða fyrst hér til að vera sammála hv. þingmanni í því að ég held að almannatryggingakerfið okkar á Íslandi sé komið að fótum fram. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum bara að kasta því fyrir róða og byggja það upp frá grunni, alveg upp á nýtt. Það er eins og útstagaður ullarsokkur. Það er búið að bæta þetta og bæta og erfitt er að sjá út úr því. Ég hef sömuleiðis verið þeirrar skoðunar í nokkuð mörg ár — þjónustan eykst og eykst í heilbrigðiskerfinu okkar og verkefnin verða stærri og stærri. Við verðum eldri og þjóðinni fjölgar á sama tíma. Það er alveg útilokað að við getum leyst þau knýjandi úrlausnarefni sem bíða okkar í framtíðinni í heilbrigðiskerfinu öðruvísi en að sjá til þess að fólk þurfi ekki að sækja þangað inn þjónustu. Það gerum við fyrst og síðast með forvörnum og aftur forvörnum.