131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Ráðning aðstoðarmanna þingmanna.

466. mál
[12:13]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég beini eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra:

Hvenær og með hvaða hætti hyggst ráðherra beita sér fyrir því að til framkvæmda komi tillögur sérstakrar nefndar, sem forsætisráðherra skipaði þegar breytingar á kjördæmaskipan voru undirbúnar og lagðar fyrir þingið, um að þingmenn landsbyggðarkjördæma gætu ráðið til sín starfsmenn eftir ákveðnum reglum?

Í skýrslu kjördæmanefnda allra þingflokka frá 1998 sem undirbjó tillögur að breyttri kjördæmaskipan og tilhögun kosninga til Alþingis var lögð áhersla á bætta starfsaðstöðu þingmanna, þá sérstaklega í hinum landfræðilega stóru kjördæmum sem þá mynduðust. Sérstök nefnd á vegum forsætisráðherra skilaði ákveðnum tillögum um hvernig auka mætti aðstoð við þingmenn í hinum stóru kjördæmum og þar lagði hún m.a. til að þingmenn landsbyggðarkjördæma gætu ráðið til sín starfsmenn eftir ákveðnum reglum. Nefndin fór mjög ítarlega yfir það hvernig staðið væri að þessum málum í nágrannalöndum okkar. Tillögur hennar voru m.a. þær að þingmönnum í Norðvestur-, Norðaustur- og Suðurkjördæmi væri lögð til vinnuaðstaða í kjördæmunum og þeir gætu ráðið til sín starfsmenn með eftirfarandi reglum:

„1. Fyrir einn þingmann hvers stjórnmálaflokks í kjördæmi komi einn starfsmaður.

2. Fyrir hvern þingmann umfram einn komi hálfur starfsmaður.“

Nefndin gerði það að tillögu sinni að 1. liður kæmi til framkvæmda árið 2001 og 2. liður árið 2003. Síðan var útfært nánar hvernig þetta mundi eiga sér stað.

Í framsögu fyrir frumvarpi til stjórnarskipunarlaga til breytinga á stjórnarskrá lýðveldisins, 10. júní 1999, komst þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, svo að orði, með leyfi forseta:

„Jöfnun atkvæðavægis milli landshluta leiðir óhjákvæmilega til þess að þingsæti færast frá landsbyggðinni til þéttbýlisins á suðvesturhorni landsins. Þegar slíkar breytingar eru í deiglunni er eðlilegt að umræða skapist um byggðamál og byggðastefnu í víðara samhengi. Í samræmi við tillögur nefndar þeirrar er undirbjó breytingar á kosningakerfinu skipaði ég aðra nefnd undir forustu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar til að fjalla um þá hlið málsins, m.a. með hliðsjón af þingsályktunartillögu. um stefnu í byggðamálum er þá lá fyrir Alþingi og var síðan samþykkt sem ályktun þess. Þeirri nefnd var jafnframt falið að fjalla um starfsaðstöðu þingmanna í hinum landfræðilega stærri kjördæmum.“

Það nefndarálit lá fyrir og var hluti af fylgiskjali og greinargerð með stjórnarskipunarfrumvarpinu. Áfram segir hæstv. forsætisráðherra:

„Ekki er því ástæða til að víkja frekar að þeim hér og nú, heldur skal það aðeins áréttað eins og ég hef áður lýst yfir að tryggt megi telja að þær hljóti að öðru jöfnu brautargengi innan þeirra tímamarka sem nefndin sjálf hefur sett þeim.“

Frú forseti. Ég ítreka spurningar mínar til hæstv. forsætisráðherra. Hvenær koma þessar tillögur til framkvæmda, eins og þær voru lagðar fram á þinginu?