131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Stöðvun á söluferli Landssímans.

530. mál
[12:30]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Það er afskaplega mikilvægt þegar verið er að ræða um hið svokallaða grunnnet að menn hafi réttar forsendur í huga en búi sér ekki til ákveðnar forsendur. Það liggur fyrir, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, að í lagaumhverfinu á Evrópska efnahagssvæðinu sem við erum bundin af, við tókum þá ákvörðun á Alþingi að taka þátt í samstarfinu á Evrópska efnahagssvæðinu, er gert ráð fyrir samkeppni í rekstri grunnneta í fjarskiptageiranum. Þetta er að sjálfsögðu lykilatriði sem er mikilvægt að hv. þingmenn gangi út frá í umræðum sínum um þessi mál.

Eins og við vitum starfrækja önnur fyrirtæki grunnnet. Nægir þar að nefna Orkuveitu Reykjavíkur, sem hv. þingmaður nefndi, Og fjarskipti og Fjarska. Ríkisrekið grunnnet sem hv. þingmaður er að tala fyrir væri í beinni samkeppni við aðra rekstraraðila og það er engan veginn hægt að tryggja viðskipti fjarskiptafyrirtækja við slíkt net, jafnvel ekki viðskipti Símans. Þessu er hins vegar allt öðruvísi farið í sambandi við raforkuumhverfið og þess vegna er ekki rétt að vera með tilvitnanir í það. Það er stundum nefnt í þessu sambandi sem möguleg fyrirmynd. Þar gerir evrópsk löggjöf einmitt ráð fyrir einkasölu í dreifingu raforku og þess vegna er allur samanburður í þessu sambandi bæði óhæfur og villandi.

Nú getur vel verið að hv. þingmaður hafi þá sýn að þetta ætti að vera allt öðruvísi en þannig eru ekki lögin. Það er ekki hægt að tryggja það nema breyta lögunum og þá nægir ekki að breyta lögunum eingöngu á Íslandi, það verður að breyta þeim á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Þetta verða menn að hafa í huga þegar verið er að tala um grunnnet. Og að ætla sér að fara að aðskilja það við þessar aðstæður gengur ekki upp. Það liggur alveg ljóst fyrir enda hefur það hvergi verið gert á Evrópska efnahagssvæðinu. Af hverju skyldi það ekki hafa verið gert? Vegna þess að menn hafa að sjálfsögðu beygt sig fyrir þeim staðreyndum lífsins sem hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar virðast eiga erfitt með að gera, og að ætla sér nú að fara einhverja aðra leið er algerlega ómögulegt. Það hefur ekkert breyst í þessum efnum frá því að ákveðið var að fara út í sölu Símans árið 2001. Langflestir sérfræðingar sem fjalla um þessi mál mæla einmitt með því.

Það að ætla að fara út í einhverja ævintýramennsku á þessu sviði á Íslandi sem hvergi hefur verið gert annars staðar mundi stór rýra söluandvirði Símans, gera það fyrirtæki afskaplega verðlítið. Og hverjum til hags? Neytendum? Nei, það eru engar líkur til þess að það mundi verða neytendum til hags. En ég heyri að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar telja að engin ástæða sé til að leggja áherslu á að fá hátt verð fyrir Símann. Hvað tryggir hátt verð fyrir Símann? Það tryggir að menn geta notað það fjármagn til annarra hluta, til að styrkja stöðu ríkisins og jafnvel til annarrar uppbyggingar í landinu sem sömu þingmenn eru að tala um nánast á hverjum degi og ég er viss um að þeir eru mjög áhugasamir um. Ég dreg það ekki í efa. En svo virðist sem þeir sjái enga leið til að fara út í slíka hluti nema að hækka skattana. Það er eina úrlausnin sem þessir ágætu hv. þingmenn sjá og við erum á móti því í núverandi ríkisstjórn.