131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Stöðvun á söluferli Landssímans.

530. mál
[12:40]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Í könnun Gallup árið 2002 voru yfir 60% af landsmönnum andvíg því að Síminn væri seldur og þær kannanir sem gerðar hafa verið undanfarið, bæði af Félagsvísindastofnun og Gallup, sýna að andstaðan fer vaxandi ef eitthvað er og nú síðast voru 76% í könnun Gallup andvíg sölu á fjarskiptakerfi Símans. Það er varla dæmi um jafnmikla andstöðu hjá þjóðinni um eitt mál eins og þetta í seinni tíð. Gildir það jafnt um félagshyggjufólk sem og þá sem aðhylltust fullt frelsi markaðarins.

Síminn er ekki einhver baggi á þjóðinni, síður en svo. Hann skilar um 3 milljörðum kr. í arð til eiganda síns, ríkisins, sem á yfir 99% í fyrirtækinu og gæti verið gott að eiga það inni til frambúðar. Alla vega mundi enginn bóndi sem væri talinn með bændum velja þann kost að selja bestu mjólkurkúna úr fjósinu og telja að það væri mjólkurframleiðslunni til framdráttar í búi sínu.

Staðreyndin er sú að við erum með fjarskiptanet hjá Orkuveitu Reykjavíkur sem tekur yfir á annað hundrað þúsund íbúa landsins, við erum með Landsvirkjun og við erum með Landssímann. Er ekki skynsamlegt, hæstv. forsætisráðherra, að staldra aðeins við, reka ekki hausinn á undan sér og taka upp viðræður við þessa aðila, eða eigum við að horfa á að byggt verði upp tvöfalt eða þrefalt fjarskiptakerfi á suðvesturhorninu á meðan aðrir landshlutar verða ekki aðnjótandi samkeppninnar. (Forseti hringir.) Það er dapurlegt ef menn þurfa að beygja sig fyrir því sem vitlaust er eins og hæstv. forsætisráðherra komst að orði.