132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[12:10]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Nú þegar hillir undir lok þessarar löngu umræðu um umdeilt frumvarp til vatnalaga langar mig á skömmum tíma að fara yfir þau atriði sem mér finnst vera lykilatriði í þessu máli, þau atriði sem hafa valdið þeim pólitísku deilum sem staðið hafa dögum saman úr þessum ræðustóli og auðvitað teygt anga sína út í samfélagið allt.

Í mínum huga vegur það þyngst að hér er hlaupið í mjög vandasamt mál með ónógum undirbúningi. Hæstv. ríkisstjórn hefði átt að vera í lófa lagið að mynda um þetta starf einhvers konar sátt fyrir fram ef vilji hefði staðið til þess. Sá vilji hefur ekki verið til staðar. Þegar vatnalögin, sem við höfum búið við í að verða 90 ár, voru samin og þegar tekist var á um þau hér á Alþingi gáfu menn sér langan tíma. Þá settu menn málið í nefnd og nefndir og vinnuferli. Í hvað langan tíma? Í sex ár. Og það komu út úr því lög sem hafa reynst okkur heilladrjúg allan þennan tíma. Þegar Norðmenn gerðu slíkt hið sama og fóru í endurskoðun sinna vatnalaga þá var það þannig þegar löggjöfin nýja tók gildi, að mig minnir árið 2000, að Norðmenn stóðu keikir og sögðu þjóðinni að þetta væri árangur nefndarstarfs sem staðið hefði meira eða minna í þrjá mannsaldra. Norðmenn tóku sér allan þann tíma sem þeir töldu sig þurfa í sína nýju vatnalöggjöf. Það er gagnlegt plagg fyrir okkur að lesa. Það var reyndar meining mín að fara á ítarlegan hátt yfir norsku vatnalögin í þeirri löngu ræðu sem ég ætlaði mér að halda í gærkvöldi, en við höfum nú náð samkomulagi þannig að sú ræða verður að bíða betri tíma.

Mér finnst skipta verulegu máli að ríkisstjórnin og hæstv. forsætisráðherra hefur látið hafa það eftir sér í fjölmiðlum að hér sé verið að færa löggjöfina til samræmis við dómaframkvæmd. Ég er hér með útskrift af viðtali við hæstv. forsætisráðherra í Ríkisútvarpinu þann 13. mars kl. 18.00, þá svarar Halldór Ásgrímsson spurningu fréttamanns með annarri spurningu, með leyfi forseta:

„Af hverju má ekki færa löggjöf til samræmis við dóma Hæstaréttar og framkvæmd mála á undanförnum áratugum?“

Þegar fréttamaðurinn spyr hvort dómarnir hafi verið í ósamræmi við lögin segir hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

„Réttarreglur þróast, lög þróast og Hæstiréttur hefur að sjálfsögðu með úrskurðum sínum í mörgum málum þróað íslenskar lagareglur miðað við það sem gengur og gerist að því er varðar eignarréttinn. Mér finnst sjálfsagt að gera þessar breytingar og ég botna ekkert í þessari stjórnarandstöðu sem leggur sig svona fram um að koma í veg fyrir að það gerist. Mér finnst það undarlegt hlutskipti.“

Þetta segir hæstv. ráðherra og þó hann geti ekki tilgreint neina sérstaka dóma í þessu sambandi þá er það alveg augljóst að hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn vill fara þessa leið, að fara eftir því sem dómararnir segja, við lagasetninguna. Mér finnst það afar alvarlegt, frú forseti, þegar hæstv. forsætisráðherra leggst svo lágt, að mínu mati, að segja að það sé ekki löggjafarsamkundan sem setur lögin heldur dómararnir. Ég verð að segja að mér fannst fjölmiðlarnir okkar ekki nægilega skarpir eða hvatskeyttir í þessu tilliti. Auðvitað átti að ganga hart eftir skýringum hæstv. ráðherra á þessu því það er þannig að dómsvaldið og löggjafarvaldið eru óháð hvort öðru, þetta eru grunnstoðir okkar lýðræðissamfélags, og það er löggjafarsamkundan sem setur lögin en ekki dómstólarnir. Mér finnst það verulegur annmarki á öllu þessu máli að hæstv. forsætisráðherra skuli hafa viljað fara þessa leið gagnrýnislaust. Þá vil ég taka upp orð Karls Axelssonar lögmanns, sem er höfundur þessa frumvarps og hefur verið að fjalla um málið á opinberum vettvangi, m.a. í efnismiklum fyrirlestri í Háskóla Íslands á föstudaginn var. Hann segir:

„Kannski er mergurinn málsins sá að lögfræðingarnir eru búnir að ná sátt um þessi umdeildu atriði“ — þ.e. eignarréttinn á vatnsauðlindinni — „en pólitíkin ekki.“ Þar held ég, frú forseti, að lögmaðurinn hafi hitt naglann á höfuðið. Lögfræðingarnir, fræðimenn í lögfræðingastétt, Lögfræðingafélagið og dómarar hafa náð sátt um eignarréttarskilgreininguna, þ.e. þeir hafa náð sátt um að í hagnýtingarréttinum sem skilgreindur er í 2. gr. gildandi laga felist eignarréttur. En er pólitíkin búin að ná þeirri niðurstöðu? Ónei, frú forseti. Stjórnmálamennirnir og hin pólitísku öfl hér í landi hafa ekki náð þessari niðurstöðu. Þess vegna er eðlilegt þegar um þessi mál er tekist að allur sá ágreiningur sem verið hefur um málið alla síðustu öld komi upp á yfirborðið. Og það er nákvæmlega það sem hefur gerst nú í þeirri umræðu sem staðið hefur hér dögum saman, að allur grundvallarágreiningurinn um skilgreininguna á hagnýtingarrétti hefur komið upp á yfirborðið og auðvitað lánast okkur ekki í þingræðum hér í þessum ræðustóli að leysa slíkan ágreining, það lánast okkur ekki. Við þurfum til þess önnur meðul og við þurfum lengri tíma.

Nú vona ég statt og stöðugt, frú forseti, að nefndarstarfið sem fram undan er og náðist samkomulag um í gær, komi til með að verða farsælt og ég vona sannarlega að þessi nefnd komi til með að ná niðurstöðu. Ég þori hins vegar ekki annað en vona það, því mér finnst ágreiningurinn vera svo gríðarlegur og mér finnst það offors sem ríkisstjórnin hefur keyrt þetta mál áfram á vera þess eðlis að mér er frekar órótt vegna nefndarstarfsins sem fram undan er og vona sannarlega að hin digru spjót verði ekki notuð í þeirri vinnu sem fram undan er og vil beina ríkisstjórninni inn á þá braut að segja sem svo: Sé sverð þitt of stutt, stígðu þá feti aftar til þess að hafa yfirsýn, en það hefur tilfinnanlega skort í þessu máli. Ríkisstjórnina hefur skort yfirsýn. Hana hefur algerlega skort skilning á því að hér er ekki einungis um að ræða frumvarp sem lýtur að orkunýtingu heldur frumvarp sem lýtur að gríðarlega viðamiklum og veigamiklum þáttum í náttúruverndarlegu tilliti. Þetta hefur ríkisstjórnin þverskallast við að opna augu sín fyrir.

Þess vegna varð mjög alvarlegur trúnaðarbrestur á milli fagstofnana þjóðfélagsins sem lýtur að umhverfismálum og náttúruverndarmálum, þeirra stofnana sem sinna þeim málefnum og umhverfisráðherra sjálfs. Þegar málið kom fram á síðasta þingi muna menn vel á hvern hátt fagstofnanirnar, Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands, brugðust við. Og menn muna að forstöðumenn þessara stofnana fengu opinberar ákúrur frá umhverfisráðherra vegna afstöðu stofnananna til frumvarpsins. En hvað var það sem þessir ágætu forstjórar voru að benda okkur og ríkisstjórninni á? Jú, þeir voru að benda okkur á að það væri ótækt að setja allt það vald sem þetta frumvarp gerir ráð fyrir að fari undir Orkustofnun eina, til hennar einnar vegna þess að í því valdi væri fólgið vald yfir náttúruauðlindunum umfram það hlutverk sem Orkustofnun er ætlað í lögum.

Sömuleiðis bentu þessir ágætu forstjórar á, eins og kemur auðvitað gríðarlega vel fram í umsögnum þessara stofnana sem hafa verið marglesnar hér úr ræðustóli, að verndarsjónarmiðin sem t.d. vatnsverndartilskipun Evrópusambandsins krefst að við innleiðum, þessir hagsmunir krefjast þess að ákveðnir veigamiklir þættir sem núna eru í frumvarpinu verði skildir þar undan og settir undir löggjöf sem heyrir undir umhverfisráðuneytið og fagstofnanir umhverfisráðuneytisins í þessum efnum. Það skiptir verulegu máli, frú forseti, að hugleiða nú þennan faglega ágreining sem uppi hefur verið og þær gríðarlega efnismiklu ábendingar sem við höfum fengið í umsögnum þeirra stofnana sem um ræðir.

Nú átti ég þess kost, frú forseti, fyrr í vikunni að sitja fund iðnaðarnefndar þar sem fulltrúi umhverfisráðuneytisins gerði grein fyrir niðurstöðu sameiginlegu EES-nefndarinnar og sérstakri bókun Íslands varðandi þá þætti vatnatilskipunar Evrópusambandsins sem ráðgert er að verði teknir upp í EES-samninginn. (Gripið fram í: Hvenær?) Fundurinn var haldinn í þessari viku í iðnaðarnefnd þar sem Ingimar Sigurðsson, skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu, kom til okkar og gerði grein fyrir sérstökum fyrirvara Íslands. Ég kvartaði undan því úr þessum ræðustóli að við hefðum ekki fengið gögnin þýdd. Nú hefur þýðing borist og ég er þakklát umhverfisráðuneytinu fyrir að bregðast skjótt við. Ég geri ráð fyrir að það hafi verið umhverfisráðuneytið frekar en nefndasvið Alþingis sem brást skjótt við og nú hef ég þennan texta í íslenskri þýðingu í höndunum og ég tel eðlilegt til að undirstrika þýðingu vatnatilskipunar Evrópusambandsins að fá að lesa þennan texta úr þessum ræðustóli, með leyfi forseta. Hér er um að ræða sameiginlega yfirlýsingu vegna ákvörðunar um að taka tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins, nr. 2000/60/EB upp í samninginn. Þarna segir, með leyfi forseta:

„Samningsaðilar viðurkenna að álag og áhrif af mannavöldum á vötn í Evrópu eru af fjölbreytilegum toga. Því kunna ráðstafanir og aðgerðir til að ná fram umhverfismarkmiðum tilskipunarinnar að vera mismunandi eftir svæðum. Í rammatilskipuninni um vatn er tekið tillit til þessa fjölbreytileika. Það gerir yfirvöldum sem bera ábyrgð á framkvæmd tilskipunarinnar kleift að velja ráðstafanir og aðgerðir sem eru lagaðar að ríkjandi álagi og áhrifum og jafnframt að ná umhverfismarkmiðunum.“

Hæstv. forseti. Síðan kemur einhliða yfirlýsing Íslands vegna þessarar sömu ákvörðunar um að taka tilskipun Evrópuþingsins og Evrópuráðsins upp í samninginn og í henni segir, með leyfi forseta:

„Ísland hefur gert grein fyrir sérstökum landfræðilegum aðstæðum sínum, einkum þeim að landið deilir ekki vatnasviði, strandsvæði eða strandsjó með neinu öðru landi. Þéttleiki byggðar er lítill, álag af mannavöldum takmarkað og losun í vatn frá iðnaði óveruleg. Verulegur hluti yfirborðsvatns fellur með jökulám og áhrif af náttúrulegum orsökum, svo sem eldvirkni og jarðvarmavirkni, eru hugsanleg. Þetta endurspeglast að okkar mati í sameiginlegu yfirlýsingunni og Ísland getur því samþykkt að rammatilskipun um vatn verði tekin upp í EES-samninginn.“

Það er afar mikilvægt, frú forseti, að menn hafi í huga að það er ljóst með þessari yfirlýsingu að ríkisstjórn Íslands telur sig bundna af vatnatilskipun Evrópusambandsins og hún ætlar sér samkvæmt orðanna hljóðan hér að undirgangast hana. Þá skulum við líka tryggja það í framhaldi þessa máls að það verði gert samhliða að verndarþættir auðlindamálanna verði teknir til skoðunar og afgreiðslu á sama tíma og nýtingarþættirnir. Annað er óskynsamlegt, annað kemur til með að reka okkur út í sams konar stríð og við höfum staðið í með þetta mál undanfarna daga.

Eitt mál langar mig til að nefna áður en ég lýk máli mínu, frú forseti, varðandi þau átök sem við höfum átt hér í. Það er eitthvað sem við verðum að leysa á næstu dögum eða vikum og verður kannski ekki endilega leyst með því frumvarpi sem hér er fyrirliggjandi. Það eru hin eignarréttarlegu álitamál sem hafa risið vegna Kárahnjúkavirkjunar og færð hafa verið upp á umræðuborðið nú í umræðunni en ég vil meina að í þeirri umræðu sem fram hefur farið sé það algerlega ljóst að löggjöf okkar í dag ræður ekki við þessi eignarréttarlegu álitamál, a.m.k. ekki af þeirri stærðargráðu sem við glímum nú við í tilfelli Kárahnjúkavirkjunar. Ég held því að það hljóti að verða verkefni Alþingis á einhverju stigi að taka á þeim málum og það sé eitthvað sem geti ekki beðið, það sé eitthvað sem þurfi að gerast hið allra fyrsta. Ég tel því að opin umræða um þennan þátt málsins þurfi að halda áfram og við þurfum að taka öll þau sjónarmið sem þar eru til staðar inn í reikninginn.

Frú forseti. Að lokum vil ég síðan segja að heimsmyndin er að breytast og það hefur verið dregið inn í umræðuna síðustu daga. Vatnsauðlindum er ákaflega misskipt á milli landa. Það er þess vegna sem vatnsauðlindir Íslands eru verðmætari en við getum kannski ímyndað okkur í dag og verðmæti þeirra á eftir að aukast í náinni framtíð.

Það er viðurkennt og við höfum komið að því oftar en einu sinni nú í umræðunni að menn séu farnir að kalla vatnið og vatnsauðlindina olíu 21. aldarinnar og ég tel rétt að hafa það í huga þegar þessi umræða um einkaeignarréttinn fer fram. Ég tel líka eðlilegt að fólk setji spurningarmerki og sé uggandi í umræðu yfir þeirri staðreynd að ásælni í jarðir á Íslandi hefur verið gríðarlega mikil og ásælni í vatnsréttindin er farin að láta á sér kræla. Ég tel þess vegna eðlilegt að allir þessir þættir séu til skoðunar í ljósi þess að vatnsauðlindin okkar er 168 rúmkílómetrar alls á ári, eftir þeim upplýsingum sem ég hef eða 606.498 rúmmetrar á hvern íbúa. Til samanburðar þessu gríðarlega magni sem við höfum yfir að ráða, þessari vatnsauðlind veraldarinnar má segja að heildarvatnsauðlindir þjóðar á borð við Egypta nema 2,8 rúmkílómetrum á ári eða 43 rúmmetrum á hvern íbúa, á móti 606.498 rúmmetrum á Íslandi. Þetta eru stærðargráður sem menn þurfa að hafa í huga þegar þessi mál eru skoðuð. Og að lokum, frú forseti, þá vil ég nefna alþjóðlega vatnsverndardaginn sem er fram undan, 22. mars er alþjóðlegur vatnsverndardagur. Ég legg til að hv. alþingismenn og hæstv. ríkisstjórn haldi þann dag hátíðlegan, fari inn í þá pólitísku umræðu sem tengist alþjóðlega vatnsverndardeginum og gerist þar virkir þátttakendur.

Að öðru leyti fagna ég því að málalyktir skuli vera komnar í þetta mál og ég lýsi því hér yfir og ég ætla að leyfa mér að vona að út úr þeirri vinnu sem fram undan er komi jákvæð niðurstaða og vonin geti þá keyrt okkur áfram inn í þá vinnu.