132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[13:12]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þarna liggur einmitt hundurinn grafinn í þessum síðustu orðum þingmannsins áður en hún fór úr pontu. Við getum við ekki séð inn í framtíðina og þess vegna getum við ekki talið tæmandi upp í hverju eignarréttindin eiga að felast og nýtingarréttindin. Nákvæmlega þarna liggur hundurinn grafinn. Ég vil að við höfum þá varúð á okkur, þegar við umgöngumst þessa auðlind sem vatnið er, að við setjum þetta inn eins og það er núna. Þá erum við ekki að breyta réttarstöðu manna í því sambandi en síðan getur löggjafinn, ef honum sýnist svo í framtíðinni, ívilnað fasteignareigendum frekar með því að skilgreina hver hinn nýi réttur þeirra er. Ef það koma hins vegar upp nýtingarmöguleikar í framtíðinni á vatni og almannavaldið telur mikilvægt að takmarka þá, þá þarf, verði frumvarpið að lögum, að fara í það að vera með íþyngjandi aðgerðir til að tryggja almannahagsmuni. Þarna liggur hundurinn grafinn, virðulegur forseti og ágæti þingmaður.