133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[19:12]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þau sjónarmið sem komu fram hjá hv. þm. Jóni Kristjánssyni hvað það varðar að almennt eru menn þeirrar skoðunar að þeir vilja ná sátt í þessu. Ég held að það sé vilji mikils meiri hluta þingsins að festa í stjórnarskrá ákvæði um að sameign eða þjóðareign á náttúruauðlindum verði tryggð, þar sem einnig verði tryggt að þessar auðlindir verði ekki afhentar varanlega. Þetta held ég að sé sá sáttagrunnur sem stjórn og stjórnarandstaða gætu vissulega mæst á. Nákvæmlega á þessum grunni mættust stjórn og stjórnarandstaða í auðlindanefnd fyrir sjö árum.

Það sem mig langaði að spyrja hv. þingmann um er: Hvaða auðlindir eru það, þ.e. fari þetta ákvæði inn í stjórnarskrá, sem löggjafinn getur ekki í framtíðinni afhent varanlega eða undirorpið séreignarrétti ef hann svo kýs? Með öðrum orðum, hvaða vörn er fyrir þjóðina í þessu stjórnarskrárákvæði gagnvart þeim vilja löggjafans sem hugsanlega kann að fæðast í óskilgreindri framtíð gegn því að auðlindir verði ekki afhentar varanlega?