133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[22:16]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra hefur misskilið mig, ég geri ekki neinar sérstakar athugasemdir við það hvernig fjallað er um vísanir í 72. gr. stjórnarskrárinnar. Hins vegar lýsir hæstv. ráðherra því yfir að það sé hægt að koma að öðrum skýringum úr auðlindanefndaráherslunni sem vantar í frumvarpið. Er verið að bjóða upp á það? Er verið að bjóða upp á það að þetta frumvarp verði í vinnu nefndarinnar skýrt með tilliti til megininntaks auðlindaskýrslunnar? Ef svo er skal ég athuga málið. Þá skal ég athuga hvort fyrir mína parta er hægt að samþykkja 1. gr. eins og hún er, en þá þarf að koma fram í nefndaráliti sameiginlegur skilningur á því að verið sé að ræða um réttindi og auðlindir sem eru ekki háðar einkaeignarrétti og að þær falli undir þjóðareign.

Í öðru lagi þarf að taka það alveg skýrt fram, sem reyndar hæstv. ráðherra sagði margsinnis í ræðu sinni áðan að hún væri sammála, að það sem fellur undir þjóðareign megi ekki selja eða láta varanlega af hendi. Þetta er megingalli á greinargerð frumvarpsins, því þetta kemur þar hvergi fram. Ef hæstv. ráðherra segir samt sem áður með einhverjum lagatúlkunum að það komi fram, gott og vel, ef hún telur að það eigi að koma þar fram skulum við bara segja það skýrum orðum.

Í þriðja lagi þarf að koma þar fram að það megi veita heimildir til að nýta auðlindir að því tilskildu að heimildin sé tímabundin og eftir atvikum, og eðli og nýtingarstigi auðlindarinnar, að gjald skuli fyrir taka. Þetta þarf að koma alveg skýrt fram. Ef hæstv. ráðherra er til í þann dans að þetta komi fram í álitsgerðinni getum við meira en talað saman.