138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

undirbúningur og kynning þjóðaratkvæðagreiðslu.

[10:39]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það er gott að nú skuli hafa verið tekin af öll tvímæli um að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla á laugardaginn fer fram og ekki seinna vænna. En það skiptir líka miklu máli hvernig staðið er að undirbúningi og kynningu og hvernig íslensk stjórnvöld tala um þennan merkisviðburð sem þessi þjóðaratkvæðagreiðsla verður. Mér skilst t.d. að lögbundnar auglýsingar um þessa atkvæðagreiðslu hafi verið dregnar til baka í fjölmiðlum. Ég vona að því hafi þá verið snúið við og menn séu byrjaðir nú á síðustu stundu að kynna þessa atkvæðagreiðslu.

En það skiptir einnig máli út á við gagnvart til að mynda öllum þeim fjölmiðlum sem þegar eru byrjaðir að streyma til landsins hvernig íslensk stjórnvöld tala. Þar hef ég verulegar áhyggjur af því hvernig ráðherrar í ríkisstjórninni hafa talað um þetta mál, síðast hæstv. fjármálaráðherra áðan sem lýsir því yfir að það sé besta tækifærið fyrr og síðar til að semja núna. Hvernig dettur nokkrum manni í hug að gefa út svona yfirlýsingu á meðan við stöndum í viðræðum að vera með ítrekaðar yfirlýsingar um að það verði að fara að semja og það verði að gerast núna. Ráðherrarnir koma hvað eftir annað í fjölmiðla og lýsa því yfir að það sé stutt í samninga. Við í stjórnarandstöðunni höfum nánast engar upplýsingar um á hvaða forsendum þeir samningar eru ef raunin er sú, eins og ráðherrarnir hafa sagt, að stutt sé í samninga í málinu. Hvernig væri nú að ráðherrar ríkisstjórnarinnar sameinuðust um það með þjóðinni að afstaðan í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu yrði sem afdráttarlausust og kynningin, það tækifæri sem gefst til að kynna málstað Íslands henni samhliða, verði sem best nýtt? Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra hvort hafinn sé undirbúningur að því að kynna málstað Íslands sem rækilegast fyrir erlendum fjölmiðlamönnum samhliða þessari þjóðaratkvæðagreiðslu.