138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

heilsugæsla á Suðurnesjum.

[11:37]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að efna til utandagskrárumræðu um þetta mikilvæga mál. Á ákveðinn hátt var vissulega ánægjulegt að sjá þann mikla hug sem var í heimamönnum í þessu máli á þeim borgarafundi sem haldinn var fyrir einum 3–4 vikum, ef ég man rétt, sem heimamenn skipulögðu sjálfir og fengu á sinn fund ráðherra til að ræða þetta mál.

Skoðun mín á þessu máli er að heilsugæsluna eigi að skipuleggja sem mest í samstarfi við heimamenn og tryggja eins og hægt er aðkomu þeirra að rekstrinum. Það hefur t.d. verið gert með ágætisárangri á Höfn í Hornafirði. En ég velti líka upp þeirri spurningu sem ég held að hæstv. ráðherra hafi gert hér óbeint, hvort Reykjanesbær sé í raun og veru í stakk búinn eða fær til þess miðað við fjárhagsstöðuna núna að taka við rekstri þessarar gríðarlega mikilvægu stofnunar.

Eins og fram kom áðan er landlæknir núna að safna upplýsingum um stöðu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og fleiri heilbrigðisstofnanir en ég held að vandinn í hnotskurn sé nýting þeirra fjármuna sem settir eru í málaflokkinn. Helsti vandinn í þessum efnum, ekki bara á Suðurnesjum, er skortur á læknum allan hringinn í kringum landið. Það þarf að fá fleiri lækna til þessarar stofnunar og greiða þeim eðlileg laun þannig að menn nýti fjármunina vel en eyði ekki umtalsverðum fjármunum í álagsgreiðslur fyrir fáa lækna sem sannarlega eru undir allt of miklu álagi. Á Suðurnesjum verður á næstu árum, það er sannfæring mín, risavaxið atvinnusvæði og þarf að hafa aðbúnað sem miðast við þá stöðu.