138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

heilsugæsla á Suðurnesjum.

[11:41]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég vil eins og aðrir þakka hv. þm. Árna Johnsen fyrir að hafa frumkvæði að þessari mikilvægu umræðu. Það er mjög gott að hún fari fram núna til að ýta á eftir þeirri umræðu sem varð hér fyrir nokkrum vikum þegar borgarafundur var haldinn á Suðurnesjum og heimamenn vöktu athygli á því neyðarástandi sem er að skapast þar. Það hryggir mig að heyra að ekki hefur mikið gerst. Þó verð ég að fagna því að hæstv. ráðherra boðaði að hún ætlaði að fara að heyra í sveitarfélögunum á Suðurnesjunum um þá tillögu þeirra að yfirtaka reksturinn. Ég fagna því vegna þess að þetta er tillaga að lausn í málinu og það er ekki rétt sem hæstv. ráðherra hafði eftir bæjarstjóranum í Reykjanesbæ, það var ekki verið að biðja um meðgjöf heldur sagði sveitarfélagið þar að sveitarfélögin væru tilbúin að yfirtaka þetta miðað við þær forsendur sem sjúkrahúsið sjálft hefur sagst þurfa, það er sem sagt þessum nýja niðurskurði sem menn hafna. Það er ekki um meðgjöf að ræða í þeim skilningi.

Mér finnst hins vegar sex mánuðir sem hæstv. ráðherra ætlar sér allt of langur tími og ég hvet hana til að gera þetta hraðar vegna þess að þetta er bráðavandi, þetta er ekki neitt sem þolir hálfs árs bið. Fólk er þegar búið að fá uppsagnarbréf. Ríkisstjórnina vantar líka almenna stefnumótun í heilbrigðismálum. Það þarf t.d. að svara þeirri spurningu sem hv. þm. Margrét Tryggvadóttir bryddaði upp á áðan. Það er læknaskortur almennt. Hvernig hefur hæstv. ráðherra hugsað sér að taka á þeim vanda? Það eru allt of fáir læknar á Suðurnesjum og hvernig má það vera? Það hlýtur að vera eitthvað galið í kerfinu þegar læknar á Suðurnesjum sem vinna mjög mikið og vinna mjög gott starf geta unnið í fríunum sínum annars staðar á landinu. (Forseti hringir.) Er þá lausn sjúkrahússins á Suðurnesjum að fá lækni af Blönduósi til að koma og vinna í sínu fríi? Þetta er náttúrlega galið.