138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

endurskoðendur.

227. mál
[12:08]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram í máli formanns viðskiptanefndar, hv. þm. Lilju Mósesdóttur, er hér kannski fyrst og fremst um tæknilegt mál að ræða sem telst nú ekki stórt í þessu samhengi. Það væri hins vegar ekki úr vegi að við þingmenn og löggjafarsamkundan færi betur yfir hlutverk endurskoðenda í stærra samhengi, sérstaklega með það í huga að í þeim boðaföllum sem hrunið hefur leitt yfir þjóðina er ýmislegt sem ég held að mörgum finnist að endurskoðendur hefðu átt að gera meiri athugasemdir við. Er ég þá að vísa í það þegar menn sjá ýmsa þætti í starfsemi fyrirtækja, eins og t.d. fjármálafyrirtækja. Ég held að flestir hafi talið það hlutverk endurskoðenda að vekja athygli slíkum á hlutum, sem fyrst og fremst fjölmiðlar og ýmsar rannsóknarnefndir hafa vakið athygli á núna. Það hlýtur að vera markmið okkar allra að koma í veg fyrir það sem gerðist áður og læra af mistökunum. Einn af þeim þáttum sem við þurfum að líta til eru endurskoðendur sem hafa svo sannarlega mjög mikilvægu hlutverki að gegna. Ef til vill er það svo að löggjafinn hafi vanrækt hér sem og annars staðar að láta starfsemi þeirra taka meira mið af þeirri fyrirtækjastarfsemi sem þróast hefur á undanförnum árum og áratugum.

Það má vel vera í þessu tilfelli eins og mörgum öðrum að við séum með mælingar þar sem við mælum ákveðna hluti, ákveðnar kennitölur og annað slíkt, t.d. í rekstri fyrirtækja, sem eru í sjálfu sér góðar og gildar, en það vantar hins vegar ýmislegt upp á til að fá heildarmyndina. Til dæmis vakti athygli mína á fundi í hv. viðskiptanefnd þegar Már Guðmundsson seðlabankastjóri fór yfir þessi mál, að vísu af öðru tilefni, að hann nefndi það að við værum eins og allar þjóðir að fara núna yfir það hvað mætti betur fara og hvers vegna ýmsir hlutir gátu gerst þrátt fyrir öll eftirlitskerfin. Eftirlitskerfin eru ekki bara opinbert eftirlitskerfi, það eru líka stjórnir, hluthafafundir, innri endurskoðendur og svo sannarlega löggiltir endurskoðendur líka. Hann benti t.d. á fjármálakerfið, að þar hefði kannski stóri gallinn verið sá að menn hefðu verið að skoða hverja einingu fyrir sig en ekki kerfið í heild sinni. Þannig gat t.d. Lehman Brothers bankinn farið á hliðina þrátt fyrir að vera með jákvætt eigið fé, sem átti ekki að vera mögulegt. En menn voru ekki þannig að mæla undirliggjandi kerfisvanda sem er til staðar.

Í því samhengi öllu saman hljótum við að líta til hlutverka endurskoðenda. Ég lít á að það sé eitt af þeim verkefnum sem við þurfum að fara sérstaklega yfir á vettvangi þingsins og hv. viðskiptanefndar, eitt af þeim fjölmörgu verkefnum sem blasa við okkur, þ.e. að fara betur yfir hlutverk endurskoðenda.

Þetta mál hins vegar er ekki þess eðlis. Þetta er lítið mál í þeim samanburði öllu saman, en er vonandi frekar til gagns en ógagns.