138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

úttekt á gjaldmiðilsmálum.

167. mál
[12:40]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil eins og aðrir sem hafa tekið til máls í umræðunni þakka hv. flutningsmönnum, þeim Guðfríði Lilju Grétarsdóttur og Ásmundi Einari Daðasyni, fyrir að leggja þetta mál fram sem ég tel mjög þarft og skynsamlegt. Það er ekki einungis þannig að rætt hafi verið um þetta í aðdraganda síðustu kosninga eins og hv. þm. Lilja Mósesdóttir gat um, ályktun um að úttekt á gjaldmiðilsmálum var m.a. samþykkt í flokksráði Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á árinu 2008 þar sem mótuð var sú stefna að gera ætti úttekt á kostum og göllum mismunandi leiða í gjaldmiðilsmálum fyrir hagkerfi okkar.

Menn geta að sjálfsögðu velt því fyrir sér og haft skoðanir á því svona fyrir fram hvað er skynsamlegt að gera út frá ýmsum öðrum forsendum sem menn kunna að leggja því til grundvallar hvert menn vilja halda í framtíðinni. Ég tel mikilvægt að í úttekt af þessum toga lyfti menn sér svolítið upp fyrir það hvað menn sjá fyrir sér til að mynda í Evrópusambandsmálum og þá á ég í raun og veru við báða hópa, bæði þá sem eru því eindregið andsnúnir og hina sem eru því ákaft fylgjandi (Gripið fram í: Heyr, heyr.) af því að ég tel að við þurfum að komast í þá stöðu að gera einfaldlega faglega úttekt. En að sjálfsögðu er þetta mál bæði efnahagslegt en líka pólitískt í sjálfu sér. Það að skipta um gjaldmiðil er ekki eitthvað sem menn gera bara si svona, reynist það illa þá geti menn skipt aftur skömmu síðar. Það er ekki svoleiðis. Það er afdrifarík ákvörðun, þ.e. að skipta um gjaldmiðil, þannig að það þarf að byggja slíkt val, eða ákvörðun um að halda þeim gjaldmiðli sem við höfum, á mjög ítarlegri og vandaðri rannsókn og úttekt og það getur verið tímafrekt verk.

Í umræðunni hafa komið upp vangaveltur um það hvernig hugsanleg upptaka evru mundi koma út fyrir okkur og sveiflurnar þar og hugsanlega mundu aðrir efnahagslegir mælikvarðar fara að taka á sig sveiflurnar, eins og atvinnuleysi, eða það hversu langan tíma það gæti hugsanlega tekið fyrir okkur. Ég er að vísu ekki sammála hv. þm. Lilju Mósesdóttur um að Maastricht-skilyrðin þýði að það tæki okkur 34 ár að taka upp evru einfaldlega vegna þess að ég hef sannfæringu fyrir því og nánast vissu að Maastricht-skilmálarnir eru til mikillar og gaumgæfilegrar endurskoðunar hjá Evrópusambandinu sjálfu, enda er það svo að það er líklega ekkert evruland í dag sem uppfyllir Maastricht-skilyrðin öll fyrir því að hafa evru, enda þótt þau hafi evru. Það er því bersýnilegt og augljóst að Evrópusambandið er að skoða þessi mál að sjálfsögðu í sínum ranni þannig að það mun geta haft áhrif hér.

Hv. þm. Lilja Mósesdóttir nefndi aðra kosti, sérstaklega sænsku krónuna sem er athyglisverð hugmynd en hún hefur þá þessar pólitísku hliðar líka að að sjálfsögðu verður að vera vilji til þess hjá stjórnvöldum viðkomandi ríkis eða myntsvæðis til að taka upp slíkt myntsamstarf. Svíarnir hafa boðað það að þeir muni efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um upptöku evru, þannig að maður veit ekki nákvæmlega hver framtíðin er hjá þeim í því efni, hvort ákveðið verður að taka upp evru eða ekki. Það er því að mörgu að hyggja. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að við leggjum vinnu í úttekt af þessum toga.

Þá þarf líka að skoða einmitt það sem hér hefur komið fram og kom fram í skoðanaskiptum hv. flutningsmanns, Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur og hv. þm. Magnúsar Orra Schrams, að það eru ýmsir aðrir þættir sem þarf að líta til, af því að gjaldmiðillinn er ekki bara eina tækið í efnahagskerfinu, það eru aðrir þættir sem hér hafa verið nefndir eins og atvinnustigið og að sjálfsögðu þarf að horfa á peningamálastefnuna almennt, vexti, vaxtastefnu, ríkisfjármálin og annað slíkt. Ég tel að úttekt af þeim toga eigi að leiða þetta fram og hún eigi að sjálfsögðu — og ég vil taka undir það sem kom fram í orðaskiptum þeirra þingmanna sem ég nefndi um hlut krónunnar í kreppunni, ég mundi ekki vilja persónulega taka eins djúpt í árinni og hv. þm. Magnús Orri Schram gerði, að líta svo á að krónan hefði verið þar einhver úrslitavaldur í sjálfu sér, en það væri fróðlegt að fá á því ítarlega rannsókn hvaða þátt hún engu að síður kann að hafa átt í að hugsanlega magna kreppuna eða hugsanlega draga úr henni.

Þegar rætt er um að krónan sé annars vegar að hjálpa okkur í augnablikinu og hins vegar valda okkur skaða hygg ég að hvort tveggja sé rétt í sjálfu sér. Staða krónunnar í dag er auðvitað að skapa okkur heilmiklar viðbótarútflutningstekjur. Það er í sjálfu sér líka rétt að veikt gengi krónunnar kemur sér afar illa fyrir fjölmargar fjölskyldur og fyrirtæki sem eru skuldsett í erlendri mynt. Þetta eru staðreyndir sem verður varla deilt um í sjálfu sér en svo geta menn kannski haft misjafnar skoðanir á því hvernig á að vinna úr þeirri stöðu.

Ég vil, hæstv. forseti, þakka fyrir þessa þingsályktunartillögu og tel að hún sé mjög tímabær og gott innlegg. Ef hún verður samþykkt verði sú vinna sem hún leggur til að fari fram gott innlegg í framtíðarumræðu eða umræðu hér í landi, í samfélaginu, í stjórnmálum og á vettvangi fræðimanna, um hvaða leiðir er best fyrir okkur að fara í gjaldmiðilsmálum til framtíðar litið.