138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

peningamálastefna Seðlabankans.

[13:31]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Peningastefnunefnd Englandsbanka ákvað í morgun að halda stýrivöxtum þar í landi óbreyttum, þ.e. í 0,5%. Hér á landi eru stýrivextirnir 19 sinnum hærri, 9,5%, og það er eðlilegt að við spyrjum okkur hér hvort þetta sé ásættanlegt, kannski ekki hvað síst í ljósi þess að við búum við gjaldeyrishöft. Að mínu mati eru ekki rök fyrir því að vera með háa stýrivexti og gjaldeyrishöft á sama tíma, fé getur ekki farið úr landi þannig að almenn hagfræðilögmál eiga ekki við. Við erum með lokað hagkerfi.

Miðað við síðustu ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans voru stýrivextir lækkaðir niður í þessi 9,5%. Miðað við rökstuðning hárra vaxta hefði gengi krónunnar átt að veikjast í framhaldinu en þvert á móti styrktist það. Við þekkjum það að íslensk heimili eru þau skuldugustu í heimi. Heimilin greiða þess vegna milljarðatugi á ári vegna hás vaxtastigs en laun hafa lækkað, skattar hækkað og verðlagið einnig. Það verður einfaldlega að koma til móts við heimilin við aðstæður sem þessar. Það er búið að hjálpa fjármagnseigendum í þessu landi og við hljótum að spyrja okkur hvenær eigi að koma til móts við þessi skuldugu heimili.

Við búum líka við stórskuldugan ríkissjóð sem mun þurfa að greiða gríðarlegar fjárhæðir í vaxtagjöld í náinni framtíð. Hvað þýða þessir háu stýrivextir þá gagnvart greiðslum úr ríkissjóði, greiðslum skattgreiðenda? Það verður minna úr að spila til að standa undir öflugu velferðarkerfi sem við öll hljótum að stefna að þannig að hagsmunir ríkissjóðs eru líka faldir í því að stýrivextir lækki.

Það er talað um skort á fjárfestingu innan lands og Samtök atvinnulífsins hafa talað fyrir því að þessir háu stýrivextir hamli einfaldlega fjárfestingu í íslensku atvinnulífi. Það borgar sig fyrir fólk í þessu vaxtaumhverfi að leggja fjármuni sína einfaldlega inn í bankana og fá örugga og háa vexti vegna þess. Á meðan verður fjárfesting í íslensku atvinnulífi mun minni en ella og þess vegna fjölgar störfum ekki eins mikið í samfélaginu og við ættum að horfa upp á. Verðmætasköpunin í samfélaginu er ekki nægileg þannig að öll rök hníga að því að við þurfum að endurskoða peningamálastefnu Seðlabankans.

Erum við sammála um það hér inni hvar í flokki sem við stöndum að það ástand sem blasir við okkur í dag sé óviðunandi? Ég vona að allir geti sagt já við því. Þetta ástand er óviðunandi. Getum við þá verið sammála um að menn eigi að setjast niður þvert á flokka, sama hvar í flokki við stöndum, og mynda starfshóp til að fara yfir þetta vandamál sem blasir við okkur? Ég segi já. Íslensk þjóð er búin að fá leið á þeim skotgrafahernaði sem hefur einkennt Alþingi Íslendinga á síðustu mánuðum. Þess vegna spyr ég hæstv. efnahagsráðherra hvort hann sé tilbúinn til að beita sér fyrir því að við setjum á fót starfshóp þvert á flokka í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins sem fari yfir peningamálastefnu Seðlabanka Íslands? Ég tel að fara þurfi yfir þetta stóra mein. Hún er dýr, hver vikan sem líður í aðgerðaleysi af okkar hálfu, og ég tel að við alþingismenn, stjórnmálamenn, eigum að koma til móts við það sem kallað er eftir í íslensku samfélagi sem er aukin samvinna og samstaða á þessum tímum.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra um gjaldeyrishöftin. Samkvæmt EES-reglum mega þau einungis vera í tvö ár og munu þá að öllu óbreyttu renna út í haust. Hvað áætlar hæstv. ráðherra að við þurfum að gera þá? Þarf að leita eftir einhverjum undanþágum eða stefnir hæstv. ráðherra að því að afnema gjaldeyrishöftin þá? Þetta er gríðarlega mikilvæg umræða og mér finnst mikilvægt að hún fari fram með það að markmiði að við ætlum að standa saman að breytingum á peningamálastefnu Seðlabankans sem við náum samstöðu um til að koma til móts við hagsmuni ríkissjóðs, við hagsmuni skuldugra heimila og líka gagnvart atvinnulífinu þannig að þau hjól geti farið að snúast á ný. Þetta er eitt stærsta mál sem við stöndum frammi fyrir í dag og ég vona að við berum gæfu til að leysa þetta eitt stærsta viðfangsefni íslensks samfélags í samvinnu.