138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

peningamálastefna Seðlabankans.

[13:56]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Hv. þm. og málshefjandi Birkir Jón Jónsson spurði hvort við gætum ekki verið sammála um að hér þyrftu að vera lægri vextir. Hver er ósammála því? Hann sagði sömuleiðis réttilega að heimilin í landinu greiddu milljónatugi í vexti í hverjum mánuði og atvinnulífið sömuleiðis. Allt er þetta satt og rétt. Ég spyr mig hins vegar: Hvað leggur stjórnarandstaðan og hv. þm. Birkir Jón Jónsson af mörkum til að ná niður vöxtum í landinu? Hvað vill stjórnarandstaðan?

Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson nefndi réttilega áðan að vextir yrðu að lækka sömuleiðis og að kostnaður íslenska ríkisins væri gífurlegur vegna hárra vaxta. Hvaða ástæðu gefur Seðlabankinn fyrir því að vextir séu ekki lægri í dag en þeir eru? Það er hægt að sjá í þessu riti sem Seðlabankinn gaf út um síðustu vaxtalækkunarákvörðun sína, Peningamálum nr. 1, í lok janúar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Að ekki skuli hafa tekist að leysa deiluna um bætur til innstæðueigenda útibúa Landsbankans erlendis hefur leitt til þess að lánshæfiseinkunn ríkissjóðs hjá einu matsfyrirtækjanna hefur verið lækkuð í áhættuflokk. Það gæti einnig tafið fyrir endurskoðun efnahagsáætlunar stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins“ o.s.frv.

Þetta er sú ástæða sem Seðlabankinn gefur fyrir því að vextir séu ekki lægri í dag en þeir eru.

Ef við trúum því, sem ég held að við séum öll sammála um, að vextir skipti máli, það skipti máli fyrir heimilin í landinu, atvinnulífið og ríkissjóð að vextir séu lágir, er það ábyrgðarhluti að leggjast gegn þeim lausnum sem við þurfum svo sannarlega að finna til að geta lækkað vexti. Hvernig ætlar stjórnarandstaðan að útskýra það fyrir heimilunum í landinu, fjölskyldunum og atvinnulífinu? (Forseti hringir.)