140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

launajafnrétti.

[10:51]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það eru komin 36 ár, bráðum 37, síðan kvennafrídagurinn frægi var haldinn 24. október 1975. Ég batt miklar vonir við þann dag og hélt að hér mundi ýmislegt breytast vegna þess að jafnrétti kynjanna — já, jafnrétti fólks — varðar hagsmuni þjóðarinnar í mörgum skilningi. Ég hef áður fært fyrir því rök.

Sett hafa verið lög um jafna stöðu karla og kvenna og þar er talað um Jafnréttisstofu, kærunefnd jafnréttismála, Jafnréttisráð, jafnréttisþing, þingsályktun um jafnréttisáætlun, jafnréttisnefndir sveitarfélaga og jafnréttisáætlanir fyrirtækja. Samt gengur lítið, frú forseti, og ég sé að þessu öllu sem við erum að tala um er stýrt ofan frá. Þetta kemur ekki neðan frá. Það er ekki vilji, hvorki hjá fyrirtækjum né öðrum. Þetta er ekki hannað af þeim.

Þess vegna hef ég lagt til, og það kom inn í lögin sem ég gat um áðan, að þróað yrði sérstakt vottunarkerfi um framkvæmd stefnu í launajafnrétti, vottun þar sem fyrirtæki fengju vottað að þau væru jafnréttissinnuð. Þá kemur það neðan frá. Þá hafa þau hag af því að fá vottun um að þau séu jafnréttissinnuð og þangað mundi fólk frekar sækja, bæði karlar og konur, að leita að vinnu.

Ég spyr hæstv. jafnréttisráðherra og velferðarráðherra: Hvað líður því að koma slíku vottunarkerfi í framkvæmd? Það stendur í lögunum, með leyfi frú forseta, sem eru frá árinu 2008 að ráðherra skuli „sjá til þess að þróað verði sérstakt vottunarkerfi á framkvæmd stefnu um launajafnrétti og framkvæmd stefnu um jafnrétti við ráðningar og uppsagnir í samvinnu við samtök aðila vinnumarkaðarins. Verkefninu skal lokið fyrir 1. janúar 2010 og skal þá fara fram endurskoðun á lögum þessum“.

Nú er árið 2010 liðið þannig að ég spyr: Hvernig gengur?