143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

efling tónlistarnáms.

414. mál
[14:15]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar fyrri spurninguna sem hv. þm. Helgi Hjörvar beindi til mín um framhaldsskólastigið í tónlistinni er staða málsins sú sem þekkt er, þetta verkefni er samkvæmt samningum á forræði sveitarfélaganna. Það komu upp vandamál sem lýstu sér í því að það minnkuðu mjög möguleikar nemenda á að fara á milli tónlistarskóla, velja sér tónlistarskóla við hæfi sem mætti lýsa best þannig að nemendurnir voru fastir einhvers konar heimilisfesti í sínu sveitarfélagi, áttu erfitt með að fara á milli sveitarfélaga. Þess vegna ákvað ríkið að bæta við þá fjármuni sem sveitarfélögin lögðu til til að liðka fyrir þannig að nemendur ættu auðveldara með að fara á milli, til að auðvelda sveitarstjórnarstiginu að hleypa nemendunum á milli sveitarfélaga og þar með á milli skóla.

Ég verð að segja að skilningur einstakra sveitarfélaga á málinu hefur verið mismunandi og get ég rætt það í seinna svari mínu. Ég vil þá nokkuð tæpa á síðara atriðinu sem þessu er tengt, sem hv. þm. Helgi Hjörvar nefndi og er um lagaumgjörðina og réttindi þeirra sem búa víðs vegar um landið og möguleika þeirra til að stunda tónlistarnám. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að ástæða er til, og ég ræddi það í þinginu að ég held í gær, að skoða löggjöf almennt um listnám, spurning þingmannsins snertir nefnilega fleiri svið en tónlistina, t.d. dansnámið. En tilgangurinn með framlagi ríkisins í þessu máli var að auðvelda nemendum hvaðan sem er af landinu að fara á milli skóla og velja sér skóla. Það var tilgangurinn með því að bæta fjármununum við. Þeir áttu ekki að koma í staðinn fyrir fjárframlag frá t.d. Reykjavíkurborg eða öðrum sveitarfélögum.