143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

efling tónlistarnáms.

414. mál
[14:26]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla svo sem ekki að ræða önnur mál þótt ég hafi vakið athygli á máli Landbúnaðarháskólans. En ég vil þó líka vekja athygli á því að það er dálítið langt á milli að krefjast þess að menn fari undir fjárlögin og borgi upp halla liðinna ára, allt að 35 millj. kr. á ári, eða að fá 170 millj. kr. og fjárfestingar að auki, 170 millj. kr. í reksturinn á ári. Það er gríðarlegt bil þarna á milli og hæstv. ráðherra skuldar þinginu skýringar á því hvers vegna þessi mismunur er og hvaða fjárveitingar koma til viðbótar sem fylgja eingöngu sameiningunni.

Mig langaði að fá að heyra betur um ágreininginn og um tímamörkin sem ég spurði um, sem eru til áramóta. Hvað þýðir það? Er markmiðið að fella samkomulagið niður um áramótin eða er eitthvað annað í undirbúningi? Kannski verð ég að reyna að gefa hæstv. ráðherra tækifæri á að segja hvaða vinna er í gangi þannig að við getum fjallað um þetta á undirbúningsstigi en ekki þegar búið er að ákveða hlutina.

Mig langar líka að velta vöngum yfir sveitarfélagamörkunum varðandi skólaþjónustuna, sérstaklega hjá grunnskólunum, sem hafa valdið því að menn hafa efast um að hægt sé að tryggja gæðin á ólíkum svæðum. Ég vil heyra skoðun hæstv. ráðherra á því. Þessi mál eru leyst með mjög mismunandi hætti í einstökum sveitarfélögum. Að hve miklu leyti getur ráðuneytið haft þar áhrif sem eftirlitsaðili með keyptri þjónustu? Það eru auðvitað sveitarfélögin sem bera þá ábyrgð en löggjafinn ber ábyrgð á rammanum sem settur er og þeim kröfum sem gerðar eru.

Í lokin á þessu stutta andsvari vil ég bara taka það fram að við verðum að gæta að því að við höfum gríðarlega gott tónlistarnám á Íslandi, einkum hjá börnum á grunnskóla- og framhaldsskólaaldri, og við megum ekki missa það niður. Ég skora á hæstv. ráðherra að standa vörð um það nám og heiti stuðningi við það.