143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

örnefni.

481. mál
[15:47]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst um það mál sem hér er á dagskrá, tímasetningu þess og mikilvægi. Mér finnst rétt að rifja það upp með hv. þingmanni að eitt sinn var sá merki maður Konfúsíus spurður hvað það væri sem hann mundi leggja áherslu á ef hann fengi völd, en hann var á þeim tíma sem hann lifði tiltölulega valdalaus þó að hann hefði orðið valdamikill eftir andlátið, ef svo má að orði komast. Hann svaraði einhvern veginn á þá leið að ef hann hefði til þess völd mundi hann tryggja það að hlutirnir hétu réttum nöfnum. Ég tel því að það sé ekki rétt að gera lítið úr mikilvægi þessa máls, enda er ég viss um að það sem hér er um að ræða muni standa og skipta máli löngu eftir þann dag sem ég og hv. þingmaður hverfum af Alþingi Íslendinga. Hér sé í raun og veru um að ræða mjög mikilvægt mál og ég geri engan greinarmun á dögum um það hvenær mál eru flutt. Úr því að það er tækifæri fyrir mig sem ráðherra til að mæla fyrir málinu núna þá gríp ég það fegins hendi.

Hvað varðar möguleika manna til þess að setja nöfn á jarðir sínar eða híbýli eða annað slíkt vísa ég aftur til athugasemda um frumvarpið og leyfi mér að grípa aftur niður á sama stað og ég gerði áður, með leyfi virðulegs forseta. Þar segir jafnframt „að ekkert sé því til fyrirstöðu að getið sé um fleiri en eitt örnefni í slíkum gagnagrunni þó svo að eitt örnefni liggi til grundvallar í opinberum örnefnagrunni“.

Eitthvað verða hlutirnir að heita þegar horft er frá sjónarhorni hins opinbera, og vísa ég þá til dæmis til þeirra hluta sem ég ræddi í framsöguræðu minni um landamerkjadeilur og annað slíkt, þar sem það getur skipt máli, slík heiti. En það er ekkert því til fyrirstöðu að önnur nöfn komi fram og utan um þau sé haldið. Hitt vil ég segja hv. þingmanni að ég er nokkur íhaldsmaður þegar kemur að nafngiftum.