145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

arðgreiðsluáform tryggingafélaganna.

[15:11]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Hvað höfðingjarnir hafast að, hinir meina sér leyfist það. Þetta orðtak kemur upp í hugann vegna frétta um ótrúlegar arðgreiðslur tryggingafélaganna. Hagur þjóðarbúsins hefur batnað undanfarin ár og fer batnandi. Hvað hefur ríkisstjórnin gert? Hún hefur lækkað veiðigjöld, afnumið auðlegðarskatt, afnumið orkuskatt, hún hefur hækkað komugjöld á sjúkrahús, hækkað gjaldskrár á hjálpartækjum sem sjúklingar þurfa að nota, hún hefur hækkað matarskatt og hún hefur hækkað bókaskatt. Heilbrigðiskerfið vantar fé og menntakerfið vantar fé, samgöngukerfið vantar fé — en ríkisstjórnin lækkar gjöld á þá sem best hafa það og best komast af.

Þess vegna er ekki að undra þótt tryggingafélög hafi talið sig geta komist upp með að greiða háan arð til hluthafanna og hækka iðgjöldin til almennings. Þau fara bara að fordæmi ríkisstjórnarinnar.

Það er fákeppni á tryggingamarkaði en þó er þar einhver samkeppni, þótt lítil sé, enda skilst mér að síminn hafi vart stoppað hjá tryggingafélaginu Verði undanfarna daga. Við þurfum að efla samkeppni eftir því sem við getum en það er erfitt í okkar litla, lokaða landi.

Virðulegi forseti. Ég er ekki viss um að það sé hægt að koma í veg fyrir hegðan tryggingafélaganna með lagaboði og ég er ekki einu sinni viss um að ég vildi búa í landi þar sem hægt væri að banna allt sem okkur finnst slæmt. En það á að beita þrýstingi og knýja fyrirtæki til sæmilegrar hegðunar og það hefur tekist í þessu, a.m.k. að hluta. Við þurfum líka að veita ríkisstjórninni aðhald og við þurfum að sjá til þess að hún fari að dæmi tryggingafélaganna og hugsi sinn gang.