145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

arðgreiðsluáform tryggingafélaganna.

[15:32]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mér þykir það sem við tölum um hér í rauninni pínlega dæmigert fyrir þá umræðu sem við þurfum reglulega að hafa á Íslandi, um að örfáir aðilar sem deila með sér agnarsmáum markaði hagi sér ekki eins og ef þeir byggju í umhverfi þar sem er virk, rík og mikil samkeppni. (Gripið fram í: Rétt.) Tilfellið er að við búum í agnarsmáu hagkerfi og það þýðir að hér bresta ákveðnir þættir sem eru undirstaða hugmyndarinnar um frjálsan markað og samkeppni, sú grundvallarforsenda að yfir höfuð sé til staðar samkeppni.

Samkeppniseftirlitið segir sjálft, eins og er hárrétt, að hér ríki fákeppni, ekki bara á þessum markaði heldur mjög víða. Þetta kemur fyrir aftur og aftur í íslensku hagkerfi. Þess vegna ætti þetta ekki að koma neinum á óvart. Það hefur ekki farið mikið fyrir lausnum í þessari umræðu enda held ég að það sé lengra í þær en mönnum þyki þægilegt að viðurkenna. Þó er mikilvægt að halda því til haga að jafnvel það ágæta fólk sem kallast víst í daglegu tali til hægri er ósátt við þetta vegna þess að þetta samræmist ekki þeirri hugsjón sem frjáls markaður stendur fyrir. Það er mikilvægt að hafa það í huga, óháð því hvernig fólk vill síðan bregðast við.

Eins og hv. 10. þm. Reykv. s. sagði áðan stingur í stúf að á sama tíma séu iðgjöldin hækkuð. En aftur verð ég að segja: Það er dæmigert, ekkert af þessu ætti að koma okkur á óvart. Þess vegna vona ég að það sé dagsatt sem hv. þingmaður á undan mér sagði, að íslensk þjóð hafi áttað sig á því að það þarf að fylgjast með málum eins og þessum. Það þurfa að vera afleiðingar af svona málum, það er mikilvægt, og ef ekki frá Alþingi þá frá almenningi sjálfum og neytendum.