145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

fæðingar- og foreldraorlof.

261. mál
[16:04]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp, eins og hv. þingmaður sem talaði á undan mér, til að lýsa yfir eindregnum stuðningi við frumvarpið og tel það eitt af þeim betri sem hefur komið inn til þingsins lengi.

Ég er einn af þeim sem voru afskaplega hissa á þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar í byrjun þessa kjörtímabils að slá af það sem búið var að samþykkja í tíð síðustu ríkisstjórnar sem var mjög metnaðarfullt, mjög metnaðarfull áform um að bæta stöðu þeirra sem eiga börn og þurfa að vera heima og þurfa á fæðingarorlofi að halda. Þetta segir manni líka og bendir manni á hversu orðið „heimili“ var misnotað dálítið mikið í síðustu kosningabaráttu. Það virtist ekki eiga við um öll heimili.

Ástandið í þessum málum er alvarlegt, mjög alvarlegt. Hvað varðar starfshópinn sem skipaður hefur verið, ég held að hann fari nú að skila einhverjum niðurstöðum, vonandi. Mér skildist á manneskju sem starfar í þeim hópi að það gæti kannski farið að gerast á næstunni, vonandi, því að það er mjög aðkallandi að þetta mál sé leyst. Ég get alveg sagt það og þess vegna langaði mig til að taka þátt í umræðunni vegna þess að maður kynnist á eigin skinni hvernig staða er hjá ungum foreldrum í dag. Í mínu bæjarfélagi er til dæmis mjög langur biðlisti fyrir börn að komast inn á leikskóla. Þau komast flest ekki inn fyrr en um rúmlega tveggja ára aldur. Það gerir líka að verkum að dagmæðrapössun stíflast. Börn komast ekki í daggæslu fyrr en um 15 mánaða aldur. Þegar fæðingarorlof er aðeins níu mánuðir skilur það eftir sig gríðarstórt gat í innkomu fjölskyldna. Í heimabæ mínum eru starfræktir mömmuhópar og þeir tóku sig saman fyrir nokkrum vikum og sendu bæjaryfirvöldum bréf til að reyna að finna einhverja lausn á þessum vanda, sem er mjög alvarlegur. Staðan er náttúrlega mismunandi hjá fjölskyldum. Til dæmis er ein móðirin búin að vera launalaus heima í sex mánuði og önnur hefur þurft að segja upp vinnunni sinni vegna þess að hún fær ekki pössun fyrir barnið sitt og enn fleiri sitja heima og stóla á vini og vandamenn sem er ekki auðvelt fyrir hvern sem er. Talandi um kostnað, á hverjum lendir það? Það eru ekki allir sem hafa aðgang að afa og ömmu eða frændfólki til að passa börnin til að fólk komist í vinnu. Þessir mömmuhópar tóku sig saman og skrifuðu bæjarstjórninni bréf, eins og ég sagði. Mig langar til að lesa það bréf hérna upp, með leyfi forseta:

„Sæl, kæru bæjarfulltrúar. Við erum hér nokkrir nýbakaðir foreldrar í Grindavík í fæðingarorlofi (mæðurnar) sem langar að benda á þann vanda sem við stöndum frammi fyrir varðandi það að komast aftur út á vinnumarkaðinn að fæðingarorlofi loknu. Þar sem ekki nægilega mörg pláss eru á leikskólum bæjarins rekur það vanda sinn til dagmæðraplássa einnig. Fæðingarorlofssjóður eins og flestum er kunnugt greiðir níu mánuði til foreldra eftir að barn fæðist. Eftir það er gert ráð fyrir í kerfinu að foreldrar komist aftur út á vinnumarkaðinn og börn í daggæslu. Sú er ekki raunin hér í fjölskyldubænum Grindavík og er því þannig fyrir komið að gat myndast í tekjuinnkomu á heimilin. Við, mæðurnar, í okkar tilfellum sjáum okkur ekki fært aftur út á vinnumarkaðinn strax þar sem börnin okkar komast ekki að hjá dagmæðrum fyrr en u.þ.b. 15 mánaða. Þetta gerir um hálft ár þar sem við erum tekjulausar, vart þarf að taka það fram hvaða áhrif það hefur fyrir heimilin.

Staða fjölskyldna sem hér setja nafn sitt undir er auðvitað mismunandi en til að gefa nokkur dæmi má nefna að sumar mæður eru byrjaðar að vinna eitthvað aftur en vinnutími þeirra er þá algjörlega háður fjölskyldu og vinum, hvað þau geta tekið að sér að passa mikið, ein hefur sagt upp vinnu sinni, einhverjar eru ekki komnar í vanda enn sökum ungs aldurs barna en sjá fram á hann, einhverjar hafa nú þegar verið tekjulausar í um hálft ár og enn aðrar hafa náð að leysa sín mál á annan hátt en vilja gjarnan að þessum málum sé betur háttað hér í bæ.“

Þetta bréf lýsir nákvæmlega hvernig staðan er gríðarlega víða. Ég veit ekki hvort viðeigandi sé að taka dæmi af sjálfum sér. Ég á dóttur sem er nýorðin móðir. Hún fékk ekki fæðingarorlof nema í sex mánuði þar sem maðurinn hennar hafði ekki verið á landinu í sex mánuði áður en barnið fæddist. Hún er því núna búin að vera heima í fimm mánuði tekjulaus og sér fram á að vera það áfram því að hún fær ekki dagvistunarpláss fyrr en í ágúst í fyrsta lagi. Það segir sig sjálft að þetta er alveg gríðarlegt vandamál sem verður að taka á.

Þetta frumvarp mun gera það að einhverju leyti, en svo þurfum við auðvitað að vinna að því saman að breyta fæðingarorlofinu þannig að þetta verði tekið til greina. Síðan verða bæjarfélög og sveitarstjórnir í samvinnu við ríki og vinnuveitendur að leysa þennan vanda þannig að foreldrar komi börnum sínum á leikskóla. Það er mjög brýnt.

Frumvarpið sem var samþykkt á síðasta kjörtímabili var gríðarlega metnaðarfullt í þá átt að við værum að nálgast þjóðirnar í kringum okkur hvað varðar þessi mál en við eigum töluvert langt í land með það. Ég vona, virðulegi forseti, að frumvarpið fái góða umfjöllun og skjóta afgreiðslu í gegnum þingið því að þetta er mjög mikilvægt mál.