150. löggjafarþing — 86. fundur,  2. apr. 2020.

Staðan á Suðurnesjum.

[10:43]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Það dylst engum það tröllvaxna verkefni sem við stöndum frammi fyrir; að vernda líf, slá skjaldborg um afkomu fólks og að því loknu að reisa við efnahag þjóðarinnar. Þau dyljast heldur engum, vonbrigði okkar stjórnarandstöðuþingmanna og kjósenda okkar yfir því að ríkisstjórnin hafi hafnað samstarfi og tillögum um aukinn stuðning við fyrirtæki og heimili, hafnað aukinni innspýtingu í fjárfestingar og velferðarmál. Atvinnuleysi á landsvísu hefur þegar stóraukist, ríflega tvöfalt fleiri umsóknir eru komnar á einum mánuði en allt árið í fyrra til Vinnumálastofnunar. Hvergi lítur staðan jafn illa út og á Suðurnesjum þar sem spár reikna með allt að 25% atvinnuleysi, 25%. Því vil ég spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hvernig hann réttlæti og útskýri í ljósi þessa að tillögum um atvinnu- og verðmætaskapandi fjárfestingar á borð við þær að flýta breikkun Reykjanesbrautar frá Fitjum að flugstöð var hafnað.

Herra forseti. Heimsfaraldur kórónuveirunnar er fimmta stóra áfallið sem vinnumarkaður á Suðurnesjum og þar með fólk og fyrirtæki og heimili verða fyrir á einum og hálfum áratug. Það var fyrst brotthvarf Bandaríkjahers, síðan bankahrunið og kreppan sem fylgdi í kjölfarið, hún kom harðast niður á atvinnumarkaði á Suðurnesjum. Síðar hafa vonir um atvinnuuppbyggingu í Helguvík ekki ræst eins og þekkt er og illræmt er, svo kom fall WOW air fyrir ári síðan og nú þetta þannig að ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Hvað er verið að gera af hálfu stjórnvalda til að milda þau miklu högg sem atvinnulíf og þar með afkoma fyrirtækja og heimila á Suðurnesjum hefur ítrekað orðið fyrir síðustu ár og nær nú hámarki með afleiðingum kórónuveirunnar? Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig og hvenær verður neyðarkalli Suðurnesjamanna svarað?