150. löggjafarþing — 86. fundur,  2. apr. 2020.

aðgerðir til stuðnings atvinnulífinu.

[11:02]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Örstutt um gistináttagjaldið. Við felldum gistináttagjaldið niður út árið 2021 þannig að það verði ekki til staðar þegar ferðaþjónustan tekur að nýju við sér. Þetta er bara stórmál. Það skiptir engu þó að hótelin séu tóm núna, þetta er aðgerð sem teygir sig út árið 2021.

Varðandi almennar aðgerðir þá kemur það vel til greina að stíga fastar niður. Ég verð að segja með tryggingagjaldið að við þurfum þá að taka breiða umræðu um það. Í fyrsta lagi að spyrja: Til hvers er tryggingagjaldið? Jú, því er t.d. ætlað að standa undir lengra fæðingarorlofi sem við vorum að ákveða rétt í þessu. Því er líka ætlað að standa undir atvinnuleysisbótakerfinu sem aldeilis reynir á um þessar mundir. Það að afnema tryggingagjaldið eða fella það brott tímabundið, lækka það, er umræða sem verður að taka í samhengi við annað það sem gjaldinu er ætlað að standa undir til lengri tíma.

Mér finnst þetta koma til greina. Ég vil hafa sterka tilfinningu fyrir því að þetta skipti máli. Ég myndi aldrei sjá fyrir mér tryggingagjaldið falla niður nema af viðskiptahagkerfinu, þ.e. fyrirtækjarekstrinum í landinu, en ekki af öllum (Forseti hringir.) opinbera hlutanum líka. Ég er þeirrar skoðunar að það stefni í að við þurfum að fara í stærri beinar stuðningsaðgerðir við fyrirtæki ef þau eigi yfir höfuð að (Forseti hringir.) geta lifað þessa krísu af.