150. löggjafarþing — 86. fundur,  2. apr. 2020.

matvælaframleiðsla og fæðuöryggi.

[11:11]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í mál sem snertir fæðuöryggi þjóðarinnar og landbúnaðarframleiðslu. Við sáum yfirlýsingu birta í gær, held ég að hafi verið, þar sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, Matvælastofnunin og að mig minnir Alþjóðaviðskiptastofnunin birtu sameiginlega yfirlýsingu þar sem hvatt er sérstaklega til þess að viðskipti með matvæli gangi vel fyrir sig og, sem er einna mikilvægast, að tryggt sé að matvælaframleiðsla sé vernduð sem og starfsmenn matvælafyrirtækja.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort gripið hafi verið til einhverra sérstakra aðgerða til að vernda þau fyrirtæki sem eru í matvælaframleiðslu á Íslandi og þá starfsmenn þeirra fyrirtækja líka. Er búið að kortleggja, t.d. eftir svæðum, hvaða fyrirtæki mestu skipta þegar að þessu kemur? Er búið að kortleggja hvernig hægt er að tryggja að nóg sé til af matvælum þar sem framleiðsla matvæla á Íslandi haldist áfram óskert?

Þetta eru mikilvæg atriði, ekki síst í ljósi þess að víða um heim hefur fólk áhyggjur af því í dag að löndin kunni að einangrast enn þá meira, að matvæli geti ekki flætt milli landa, að einhver lönd verði ekki sjálfum sér nóg þegar kemur að matvælaframleiðslu. Því er gríðarlega mikilvægt að við tökum öll þau skref, beitum öllum þeim ráðum sem við getum til að íslensk matvælaframleiðsla, hvort sem það er á landi eða í sjó, sé tryggð með öllum tiltækum ráðum.

Ég fór yfir þær aðgerðir sem ráðherra hefur boðað í aðgerðaplani sínu. Ég fagna því að það eigi að veita nýsköpunarstyrki til garðyrkju, mjög gott mál, en það þarf að gera fleira. Þó að grænmeti sé hollt og gott lifum við ekki eingöngu á því. Það þarf að gera fleira og því spyr ég ráðherrann út í þau atriði sem ég nefndi hér áðan. Ég spyr líka hvort komið hafi til tals að breyta lögum þannig að hægt sé að bjóða garðyrkjunni lægra raforkuverð.