151. löggjafarþing — 86. fundur,  27. apr. 2021.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það hefur verið gaman að fylgjast með ævintýrum Húsvíkinga síðustu vikurnar eftir að lagið „Húsavík“ var tilnefnt til Óskarsverðlauna í flokki frumsaminna sönglaga. Húsvíkingar gripu tækifærið sem fólst í þessari tilnefningu, í samvinnu við fólkið á bak við kvikmyndina, og sköpuðu nýtt ævintýri. Magnað myndband með flutningi lagsins var tekið upp á Húsavík. Engin smávegis landkynning það. En svona ævintýri verður ekki til af sjálfu sér. Grunnurinn að ævintýrinu er lagður með aðlaðandi umhverfi fyrir kvikmyndagerð á Íslandi. Kvikmyndagerð hefur fest sig í sessi hér til framtíðar sem mikilvæg list- og atvinnugrein. Hún er alþjóðleg, getur verið sjálfbær og skapar gríðarleg verðmæti fyrir ríkissjóð. Atvinnugreinin skapar fjölbreytta þekkingu og hæfni í íslensku samfélagi og á 4.000 beinna og afleiddra starfa og laðar að erlenda fjárfestingu.

Árið 2020 var metár þegar kemur að endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Umfang verkefna var slíkt að stjórnvöld bættu í fjárheimildir í fjáraukalögum. Framsóknarflokkurinn hefur talað fyrir nýtingu tækifæra kringum kvikmyndagerð með því að styðja enn frekar við greinina, t.d. með því að hækka endurgreiðslur frá því sem nú er í 35% af framleiðslukostnaði. Það er vel mögulegt að gera kvikmyndaframleiðslu að enn öflugri stoð íslensks efnahagslífs. Síðastliðið haust var samþykkt kvikmyndastefna til ársins 2030. Stefnan var unnin í nánu samstarfi atvinnulífs og stjórnvalda undir forystu hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. Kvikmyndastefnan er mikilvæg viðurkenning á greininni.

Ævintýrið á Húsavík varð heldur ekki til af sjálfu sér. Vel gert, Húsvíkingar, að takast að nota þetta litla Eurovision- og Óskarsævintýri til að skapa gleði og samstöðu í heimabænum Húsavík og á landinu öllu.