151. löggjafarþing — 86. fundur,  27. apr. 2021.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Tvö þingmál hafa verið hér á dagskrá og eru á dagskrá þingsins í dag sem varða afstöðu og tengsl Íslands við Evrópusambandið. Ísland er sjálfstætt og fullvalda ríki og Evrópusambandið er samband sjálfstæðra og fullvalda ríkja sem hafa ákveðið að deila örlögum sínum að nokkru leyti. Það er gert fyrst og fremst til þess að varðveita friðinn í álfunni. Það er gert fyrst og fremst til þess að auka hagsæld íbúanna. Það er gert með margvíslegum hætti. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að Ísland eigi að taka sæti meðal þessara þjóða. Okkur hættir oft til þess að líta á hlutina eingöngu út frá krónum og aurum. Hvað græðum við á því að taka þátt í svona samstarfi? Við eigum ekki að leggja þann mælikvarða eingöngu á Evrópusamstarfið og þátttöku Íslands. Við eigum að leggja þann mælikvarða, a.m.k. að jafn miklu leyti: Hvað getum við lagt af mörkum í þessa miklu samvinnu? Hvað getum við gert til þess (Forseti hringir.) að gera Evrópu betri? Við höfum margt til málanna að leggja og við eigum ekki að horfa á þessi mál frá sjónarhóli smælingjans, síður en svo.