Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

þrepaskiptur skyldusparnaður.

[11:01]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Þegar talað er um embættismenn sem enginn hefur kosið þá finnst mér nú dálítið vegið að hugmyndinni um sjálfstæðan Seðlabanka sem ég held að sé algjört grundvallaratriði í okkar efnahagsstjórn, að Seðlabankinn hafi skýr verkefni, hann hafi tól og tæki og sé sjálfstæður í sínum ákvörðunum. Það held ég að myndi setja okkur á braut til algjörs uppnáms ef við ætluðum að taka það til endurskoðunar. (ÁLÞ: Að setja …) Hugmyndin sem hv. þingmaður nefnir hér er í raun og veru um það að taka af ráðstöfunarfé heimilanna, að þvinga heimilin (Gripið fram í.) til að leggja til hliðar af sparnaði sínum í stað þess að fara vaxtahækkunarleiðina. Út frá efnahagslegu sjónarmiði þá er hægt að ná fram mikilli virkni með þessu. Hins vegar er hópurinn sem hv. þingmaður hefur áhyggjur af kannski fyrst og fremst hópurinn sem er með óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum og ég er sammála því að það er hópur sem við þurfum að fylgjast vel með. Mér finnst að það liggi mikil skylda (Forseti hringir.) sömuleiðis hjá viðskiptabönkunum að gæta að stöðu þess hóps og ríkisstjórnin hefur síðan möguleikann á því að grípa inn í ef þær aðstæður skapast að ástæða er til þess.