Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

vextir og verðbólga.

[11:03]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegi forseti. Stýrivaxtahækkunin í gær er gríðarlegt högg fyrir heimili og fyrirtæki, tugþúsundir króna á mánuði fyrir fjölda heimila sem trúðu því að hér væri runnið upp sérstakt lágvaxtaskeið í krónuhagkerfinu. Og af hverju trúði fólk þessu þegar staðreyndin er sú að á síðustu 25 árum hafa vextir hér verið að meðaltali rúmlega tvöfalt hærri en í nágrannalöndunum? Svarið felst m.a. í óábyrgum kosningaáróðri. Sjálfstæðisflokkurinn auglýsti mikið fyrir síðustu kosningar: Lægstu vextir í sögunni. Í viðtölum í aðdraganda kosninga talaði formaður flokksins oft um að runnið væri upp lágvaxtaskeið og eignaði flokknum sínum þá stöðu oft og ítrekað. Flokkurinn taldi sér til tekna, með ítrekuðum auglýsingum dagana fyrir kosningar, að mánaðarleg afborgun af 20 millj. kr. húsnæðisláni hefði lækkað um 28.000 kr. á mánuði. Frá því að þetta auglýsingaskrum flokksins birtist hafa afborganir af þessu sama láni hækkað um 80.000 kr. á mánuði. Það er næstum ein milljón á ári. Af 40 millj. kr. láni hefur afborgunin hækkað um nærri tvær milljónir á ári. Undir þessu standa heimilin ekki. Ef það er Sjálfstæðisflokknum að þakka að afborganir lækka þá er það að sjálfsögðu sama flokki að kenna ef afborganirnar hækka aftur. Formaður flokksins fullyrti líka í viðtölum og auglýsingum um lága vexti og verðbólgu, með leyfi forseta: Þetta mun breytast ef ný ríkisstjórn setur verðbólguna af stað aftur.

Þetta sagði Bjarni Benediktsson tveimur dögum fyrir kosningar. Það er ekki hann heldur aðrir sem munu setja verðbólguna af stað og vextina upp, ítrekað og aftur. En hvar er lágvaxtaskeið formanns Sjálfstæðisflokksins núna? Lægstu vextir í sögunni gufuðu upp á andartaki og það sem meira er, auglýsing Sjálfstæðisflokksins um lægstu vexti í sögunni virðist líka hafa gufað upp á internetinu. Það er a.m.k. talsvert dýpra á henni núna en þegar hún var út um allt á flettiskiltum og í auglýsingum í fjölmiðlum. (Forseti hringir.) Þetta er óumdeilanlega hraðasta og hraðvirkasta úrelding á kosningaloforði í seinni tíma stjórnmálasögu.(Forseti hringir.)

Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hvar eru lægstu vextir í sögunni núna? Og finnur formaður Sjálfstæðisflokksins til ábyrgðar sinnar gagnvart fólkinu sem hann seldi tálsýnina (Forseti hringir.) og blekkinguna um að vextir gætu verið lágir til lengri tíma í krónuhagkerfinu?