Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

almannatryggingar og félagsleg aðstoð.

533. mál
[11:25]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér greiðum við atkvæði um mikilvægt mál á vegferð umbóta á almannatryggingakerfinu eins og fram hefur komið hjá öðrum hv. þingmönnum. Málið varðar að miklu leyti framsetningu en einnig samræmingu á ýmsum ákvæðum þar sem er verið að skýra og tryggja betur ákveðin réttindi þeirra sem að njóta réttinda samkvæmt lögunum. Breytingartillögur meiri hluta snúast einnig um að skýra framsetningu og leiðrétta ýmsar tilvísanir í lögunum vegna nýlegra lagabreytinga sem hér hafa verið samþykktar.

Ég vil þakka hv. velferðarnefnd, öllum þingmönnum þar, fyrir góða samvinnu um þetta mál. Að lokum vil ég koma inn á að minni hlutinn hefur lagt fram ýmsar frekari tillögur um efnisbreytingar á lögunum og margar af þeim tillögum eiga fullt erindi í þá vinnu sem nú fer fram um heildarendurskoðun laganna. Þá leggur meiri hlutinn til að ein af þeim tillögum verði samþykkt og að því komum við betur hér síðar.