Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

staðgreiðsla við innborgun í lífeyrissjóði.

77. mál
[17:23]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf):

Herra forseti. Hér er um stórt mál að ræða. Eins og hv. þm. Inga Sæland nefndi eru upphæðirnar gríðarlegar, 6.700 milljarðar, ef ég heyrði rétt, þannig að ég er nokkuð viss um það að umræða um lífeyrissjóðina á eftir að verða tekin oftar hér á þinginu og verða dýpri innan skamms. Það eru gríðarleg völd sem felast í þessum lífeyrissjóðum og það er alveg ljóst að þá þarf að lýðræðisvæða og ég er þeirrar skoðunar að það væri eðlilegast að það væru einungis fulltrúar launþega í lífeyrissjóðunum. Ég held að það sé bara einfaldlega best fyrir atvinnulífið. Það skarast hagsmunir og býr til ýmsa erfiðleika þegar Samtök atvinnulífsins ráða svo miklu í sjóðunum. Þetta tækifæri sem þessi tillaga gefur — þetta er einfaldlega góð tillaga á þessum tímapunkti að hrinda í framkvæmd, herra forseti, vegna þess að með henni er verið að draga verulega fjármuni út úr hagkerfinu núna strax sem annars færu inn í lífeyrissjóðina og þyrfti að koma í fjárfestingar. Það tel ég að yrði góður þáttur í því að slá á þensluna.

En að lífeyrissjóðunum almennt. Það er alveg ljóst að þeir eru komnir með, vil ég telja, of mikinn hluta af hlutfalli launa í sína umsýslu og ég held að þegar menn eru komnir með 15,5% af allri launaveltu í landinu og þurfa að ávaxta það með 3,5% ávöxtun þá er verið að setja þá í ákveðinn vanda að vera með svona mikla fjármuni og það færi einfaldlega betur að því að breyta kerfinu aðeins þannig að það væri að hluta til gegnumstreymiskerfi og að hluta til fjárfestingarkerfi. Það held ég að sé borðleggjandi. Síðan er auðvitað alveg ljóst að þegar þetta er orðið 15,5% af launaveltu og tryggingagjaldið ofan á þá er þetta orðið ríflega 21% af launum sem fer einfaldlega ekki í veski launþegans. Tryggingagjaldið er bara flatur launaskattur. Það er ljóst að þegar verið er að taka svona drjúgan hluta og síðan er skatturinn að meðaltali kannski í kringum 30% af launum þá er voðalega lítið sem fer í vasann. Ég held að menn þurfi nú aðeins að fara að staldra við hvað mikið fer af launatekjum og er tekið í burtu og launamaðurinn sér aldrei. Það er mjög mikilsvert líka að breyta fleiri þáttum sem snúa að lífeyrissjóðunum og sérstaklega æpir það á mann í samfélaginu í dag að gefa lífeyrissjóðunum kost á því að fjárfesta frekar í leiguhúsnæði þannig að fólk fái eðlileg kjör og það komist út úr þessum hálfgerða kúrekabrag sem er á öllu hjá leigufélögunum og verðið er hækkað um tugi prósenta. Í öðru lagi þarf að bregðast við húsnæðisvandanum í landinu og auðvitað ætti að gera það með því að virkja lífeyrissjóðina þannig að þeir fengju að stofna leigufélög og fá þannig meiri festu á húsnæðismarkaðinn heldur en raunin er núna. Og ef ekki núna, hvenær þá?

Ég er, eftir að hafa hlýtt hér á góða ræðu hv. þm. Ingu Sæland, bjartsýnn á að þetta mál fari í gegnum þingið. Hvort það verði akkúrat þetta þingskjal sem verði samþykkt eða ekki, en ég er nokkuð viss um að hljómgrunnur fyrir þessum sjónarmiðum sé mikill og að þessar hugmyndir sem koma hérna fram eigi eftir að verða ofan á innan skamms. En auðvitað færi best á því að hv. þingmenn hér á Alþingi myndu hrinda þessu strax í framkvæmd og samþykkja þessa tillögu vegna þess að umhverfið kallar á hana, kallar á að slá á þensluna og síðan að leggja drög að því að virkja lífeyrissjóðina til góðra verka fyrir almenning í landinu.