Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu.

94. mál
[18:26]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Frú forseti. Ég var svo sem búin að nefna þetta fyrr í dag þegar við vorum að fagna þeim yndislega áfanga að þingheimur allur tók utan um mál Sjónstöðvarinnar sem lýtur að því að koma með aukafjárveitingu upp á 35 millj. kr. á ári í tvö ár til þess að festa kaup á byltingarkenndum tækjum fyrir blinda og sjónskerta til að öðlast betra líf og hreinlega sjá í mörgum tilvikum. En þá nefndi ég það að nafnið á Sjónstöðinni, sem ég kýs að kalla hana, er náttúrlega svo skelfilega langt og skringilegt og svo mikill tungubrjótur að ég man aldrei og man t.d. ekki núna hvað stofnunin raunverulega heitir. Þess vegna er ég með þetta frumvarp og hlustið nú vel. Þetta er frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, nr. 160/2008, með síðari breytingum (heiti stofnunar).

Frú forseti. Maður hringir í Sjónstöðina, þau eru farin að segja Sjónstöðin, þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta. Áður fyrr var þetta þannig að þú hringdir inn og það var sagt: Góðan daginn, þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. Þetta er náttúrlega bara ruglað, frú forseti. Það á engin einasta stofnun að heita öllum þessum nöfnum og eðli málsins samkvæmt má tryggja það að allir þeir einstaklingar sem þurfa á þjónustu þessarar dásamlegu Sjónstöðvar að halda viti alveg tvímælalaust hvaða þjónustu hún er að veita og það mun ekki standa á Blindrafélaginu, á hæðinni fyrir neðan Sjónstöðina, að láta vita af því hvaða þjónustu þeir sjónskertu og blindu einstaklingar geta fengið hjá Sjónstöðinni. Ég held að almennt í þessum heimi sem ég hef nú lifað í, að vera lögblindur einstaklingur sjálf, þá leitum við þangað sem við teljum að við getum fengið einhverja aðstoð og einhverja hjálp þannig að það er alveg galið að halda að það þurfi að vera með svona skringilegt nafn. Ég efa það ekki að þetta verði tekið fyrir núna, bara í kjölfarið á því að við komum þessu yndislega máli í gegn í dag, allir flokkar að tillögu Flokks fólksins. Við gerðum samkomulag um það núna fyrir jólin þegar við vorum að fara í jólafrí. Þetta svokallaða, eða ég veit ekki hvað ég á að segja, við gerum samkomulag kannski um að fá að taka út eitt mál og koma því í gegnum atkvæðagreiðslu, lýðræðislega atkvæðagreiðslu, tvö mál eða í þessu formi, manni er heitið því að mál nái fram að ganga og það verði gert eins fallega og kostur er. Í þessu tilviki var það öll velferðarnefnd sem tók utan um málið og hér var það samþykkt af öllum þingheimi í dag, og aftur: Til hamingju, blindir og sjónskertir. Sérstaklega er þetta ánægjulegt fyrir blessuð börnin. Það er ömurlegt að vera blint lítið barn og hafa í rauninni nánast enga aðstoð varðandi það. Þess vegna er stórkostleg vinna sem þarna er unnin og stórkostlegt að þingheimur skuli taka utan um það og enn þá stórkostlegra ef við höldum áfram að fylgja eftir þeirri öru tækniþróun stafrænna lausna og alls konar lausna sem eru að koma fram núna til þess einmitt að hjálpa bæði blindum, sjónskertum og þeim sem eru heyrnarlausir.

Frú forseti. Ég vísa í 1. gr. frumvarpsins, að í stað orðanna — og nú segi ég aftur nafnið sem ég gleymi alltaf — „þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón og heyrnarskerðingu“ í 1. mgr. 1. gr. laganna, komi einfaldlega: Sjónstöðina. Í 3. gr. segir: „Heiti laganna verður: Lög um Sjónstöðina. 4. gr. „Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Frumvarp þetta var áður lagt fram á 152. löggjafarþingi, 37. mál, og nú er ég að leggja það fram að nýju óbreytt. Ég mælti fyrir því fyrir ári síðan á síðasta löggjafarþingi. Ég held í raun að það hafi verið stórkostleg mistök og bara algjör misskilningur að það náði ekki fram að ganga þá. Þetta er einhvern veginn svo sjálfsagt að ég held að það hafi bara hreinlega gleymst í meðförum nefndarinnar að koma því hingað inn. Nefndin getur auðvitað, og við öll, tekið utan um þetta í heild sinni. Ég er í rauninni málsvari Sjónstöðvarinnar hér sem var að bera það fram hvort þingheimur gæti ekki hjálpað þeim að losna undan þessu rosalega stóra og mikla nafni og gefið þeim tækifæri á því að heita bara Sjónstöðin. Ég er full bjartsýni um að það muni ná fram að ganga.

Umsagnir bárust um frumvarpið bæði frá starfsmönnum og stjórnendum stofnunarinnar, Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, sem sagt Sjónstöðinni. Umsagnaraðilar fögnuðu allir markmiði frumvarpsins og studdu framgang þess, eðlilega.

Í frumvarpi þessu er lagt til að heiti þeirrar stofnunar sem sinnir þjónustu við blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu verði breytt. Stofnunin heitir nú því óþjála heiti — ég trúi ekki að ég ætli að segja það aftur en ég ætla samt að gera það — Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. Heiti stofnunarinnar er því þrettán orð og rúmlega 90 bókstafir. Nafn á einni sjónstöð, þjónustumiðstöð, er þrettán orð og rúmlega 90 bókstafir. Lengst af hét þessi stofnun lögum samkvæmt Þjónustu- og endurhæfingarmiðstöð sjónskertra en gekk undir nafninu Sjónstöðin. Við endurskoðun laga í gegnum árin hefur heitið ítrekað tekið breytingum og stafafjöldinn hefur aukist. Það tíðkast almennt ekki í heiti annarra stofnana að telja upp í heiti þeirra hvert og eitt einasta viðfangsefni sem stofnuninni er ætlað að sinna, bara alls ekki. Því er engin ástæða til að beita þeirri formúlu einungis í heiti þessarar stofnunar. Nú er kominn tími til að gefa stofnuninni venjulegt heiti, bara venjulegt heiti sem allir geta munað og þurfa ekki að velkjast í vafa um hvert raunverulega nafnið er. Nafnið Sjónstöðin lýsir vel hlutverki stofnunarinnar, þ.e. að aðstoða þá sem eru blindir, sjónskertir eða með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. Auk þess kannast margir við heitið, enda var starfrækt Sjónstöð allt frá árinu 1987–2008, í 21 ár.

Frú forseti. Ég er bara verulega bjartsýn á að við girðum okkur í brók eins og við erum beðin um. Þetta kostar ríkissjóð heldur ekki krónu frekar en flest þau frumvörp og þingsályktunartillögur sem ég hef verið að mæla fyrir hér í dag þannig að ég segi: Áfram veginn, Sjónstöðin, bjartsýni og bros bjargar deginum.