131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Háskóli á Ísafirði.

522. mál
[15:40]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Hv. þingmaður hefur lagt fyrir mig fyrirspurn þess efnis hvort ég muni beita mér fyrir stofnun háskóla á Vestfjörðum.

Til að svara þeirri spurningu er nauðsynlegt að líta til forsögu málsins sem er í stuttu máli sú að í maí 2004 kynnti ég í ríkisstjórn niðurstöðu vinnuhóps á vegum menntamálaráðuneytisins um uppbyggingu háskólanáms á Vestfjörðum. Niðurstaða vinnuhópsins varð sú að við uppbyggingu háskóla og rannsóknastarfsemi á Vestfjörðum væri ákjósanlegasta leiðin að stofna Þekkingarsetur Vestfjarða sem byggði á þeirri starfsemi í rannsóknum og háskólakennslu sem þegar væri fyrir hendi og áformuð væri á Vestfjörðum. Má segja að niðurstaða vinnuhópsins byggi á þeim hugmyndum sem heimamenn höfðu sett fram í gegnum tíðina og er svipað upp á teningnum austur á Egilsstöðum.

Nánar tiltekið gerðu tillögur nefndarinnar ráð fyrir að skapaður yrði sameiginlegur vettvangur fyrir rannsóknastofnanir, fjarkennslu og staðbundna kennslu á háskólastigi, símenntun og undirbúningsnám á einum stað í fjórðungnum. Með þessu fyrirkomulagi væri komið á æskilegum sveigjanleika í skipulagi og starfsháttum auk þess sem það gæfi kost á virku samstarfi við rannsóknastofnanir og háskóla í landinu við uppbyggingu þekkingarstarfsemi á Vestfjörðum.

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í maí 2004 að taka undir tillögur vinnuhópsins um uppbyggingu Þekkingarseturs Vestfjarða jafnframt því sem ráðuneytið yrði þess hvetjandi að stuðla að eflingu rannsókna á Vestfjörðum og að háskólar og rannsóknastofnanir á þeirra vegum tækju upp samstarf við þekkingarsetrið.

Í framhaldi af þessu skipaði ég starfshóp til að undirbúa stofnun Þekkingarseturs á Vestfjörðum. Hópurinn fékk það verkefni að gera tillögur um það hvernig best yrði staðið að stofnun setursins, skipulagi og uppbyggingu á starfsemi þess. Gengið var út frá því að allt nám við setrið yrði á vegum og ábyrgð viðurkenndra háskóla og að þeir ættu jafnframt beina aðild að stjórn þekkingarsetursins. Starfshópurinn vann enn fremur tillögur að skipulagsskrá fyrir þekkingarsetrið sem nú liggur fyrir að muni hefja starfsemi sína í haust.

Í sl. viku kynnti ég tillögur nefndarinnar á ríkisstjórnarfundi og mælti með því að gengið yrði til þess að stofna Þekkingarsetur Vestfjarða með formlegum hætti. Málið hefur hlotið jákvæðar undirtektir í ríkisstjórn enda eru tillögurnar algjörlega í samræmi við þá umræðu sem fram hefur farið í vísinda- og tækniráði og rétt að geta þess að vísinda- og tækniráð er undir forustu forsætisráðherra. En í síðustu ályktun vísinda- og tækniráðs, þ.e. frá desember 2004, er sérstaklega vikið að stofnun þekkingarsetra á landsbyggðinni.

Þekkingarsetur á Vestfjörðum verður öflugur samstarfsvettvangur um háskólamenntun, símenntun og rannsóknir. Aðild að þekkingarsetrinu munu eiga háskólar sem bjóða þar fjarnám og staðbundið nám, rannsókna- og þjónustustofnanir, fyrirtæki og sveitarfélög á Vestfjörðum. Þekkingarsetrið verður sjálfseignarstofnun sem gerir samstarfssamninga við háskóla og rannsóknastofnanir innan lands og utan sem stuðla að auknu námsframboði á Vestfjörðum og rannsóknum sem byggja á sérstöðu Vestfjarða. Allir háskólar í landinu, rannsóknastofnanir með starfsemi á Vestfjörðum, sveitarfélög og aðrir aðilar fyrir vestan hafa samþykkt aðild að setrinu.

Meginmarkmið mitt með skipun starfshóps var að styrkja og efla háskólamenntun og rannsóknir á Vestfjörðum. Á Ísafirði hefur á undaförnum árum byggst upp mikilvæg kjarnastarfsemi um háskólamenntun og rannsóknir á vegum Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða og rannsóknastofnana. Ég tel mikilvægt að byggja á þeim grunni sem fyrir er og skapa sveigjanleika fyrir starfsemi sem tengist háskólamenntun, rannsóknum, símenntun og þjónustu við atvinnulíf.

Til að geta boðið upp á fjölbreytt framboð af háskólanámi sem er viðurkennt í öðrum háskólum og alþjóðlega er nauðsynlegt að hafa virka aðild háskóla í landinu að starfseminni og tryggja námsframboð með fjarnámi. Með samstarfi við rannsóknastofnanir sem fyrir eru á svæðinu er stuðlað að því að tengja saman rannsóknir og háskólamenntun og skapa frjóan grundvöll fyrir virka þekkingarstarfsemi.

Ég tel, herra forseti, að með stofnun Þekkingarseturs á Vestfjörðum sé nauðsynlegur grunnur lagður að framsækinni háskólastarfsemi á Vestfjörðum. Það er einmitt markmið sem ríkisstjórn Íslands stefnir að.