131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Samningur um menningarmál.

541. mál
[16:08]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Við getum verið sammála um það, ég og hv. þingmaður, að sumir hlutir geta vissulega tekið langan tíma en það sem skiptir auðvitað máli er að fara að lögum. Þau fjárlög sem eru samþykkt hér á þingi eru lög eins og önnur lög sem ber að fara eftir og við þurfum að starfa innan þess ramma sem þau setja okkur hverju sinni.

Ég held að málið sé í ágætum farvegi. Við sjáum fram á og ég bind vonir við það að geta farið í fleiri menningarsamninga. En við verðum líka að átta okkur á því hvað það er nákvæmlega sem við viljum fá út úr menningarsamningunum. Fyrsti menningarsamningurinn sem var gerður við Austfirðinga var ákveðin tilraun, eins og ég kom inn á áðan. Við eigum að halda áfram að þróa þær tilraunir því að ég vil meina og er sannfærð um að bestu byggðamálin og besta byggðastefnan sem rekin er hér á landi er að efla menningarstarfsemi og menntastarfsemi. Það er lykillinn að því að byggðin haldist og verði blómleg áfram um land allt. Að mínu mati á að forgangsraða peningunum í þá veru, svo við tölum nú alveg klárt.