132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[13:30]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst um lögfræðingana. Ég er einfaldlega ósammála þessum lögfræðingum. Við erum löggjafarsamkunda sem er að taka afstöðu til þessa máls á pólitískum forsendum. Við höfum að sjálfsögðu hliðsjón af álitsgerðum ýmissa hagsmunaaðila og álitsgjafa, lögfræðinga sem upp til hópa hafa komið að málinu á vegum ríkisstjórnarinnar, þeir sem samið hafa lögin. Það eru einkum þeir sem hafa verið að tjá sig. Það eru fleiri sem hafa gert það að sönnu. Ég er ósammála þessum aðilum og ég tel rétt að færa rök fyrir mínu máli.

Hvað varðar einkavæðingu á vatni og hvort þetta þetta frumvarp sé einkavæðing á vatni, þá tel ég þetta vera þráð eða þræði, eins og ég orðaði það, í stærra mynstri sem gengur út á að búa í haginn fyrir einkavæðingu á vatni. Ég vísaði til ummæla fyrrum hæstv. iðnaðarráðherra sem sagði við annað tækifæri, en skylt, að til þess að geta nýtt vatnið yrði að kveða skýrt á um eignarréttinn á vatninu. Með þessu frumvarpi er reynt að kveða skýrar á um eignarrétt á vatni en áður var. Sumir segja að það sé verið að aðlaga það dómum sem kveðnir hafa verið upp og segja jafnvel að það sé engin innihaldsbreyting. Mér finnst felast innihaldsbreyting í þessu. Ég hef ekki sannfærst af rökum um annað.