132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[13:38]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held áfram að þakka hv. þingmann fyrir glaðninginn. Það sem ég kann hins vegar illa við í málflutningi annars ágæta hv. þingmanns er að hér er verið að láta að því liggja að verið sé að taka réttindi fólks til að fá vatn frá því. Slíkur málflutningur þykir mér ekki hv. þingmanni sæmandi.

Ég vek athygli á því að í 15. gr. sem heitir „Forgangur að vatni“ er nákvæmlega farið yfir það að almenningur hefur forgang að vatni miðað við þetta frumvarp og það var þannig í þeim lögum sem eru til staðar. Formaður Samfylkingarinnar gat ekki bent á hvaða takmarkanir og eignarréttindi á vatni eru í núgildandi lögum frá árinu 1923 enda talar sá stjórnmálamaður ekki skýrt. En sá sem hér var talaði skýrt fyrir hönd stjórnarandstöðunnar, býst ég við, um að það á að fara að þjóðnýta þau réttindi sem eru til staðar núna.