133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[16:36]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það vakti athygli í síðustu viku þegar fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna þriggja lýstu því yfir að þeir væru tilbúnir til að greiða fyrir því á Alþingi að ákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindum yrði tekið upp í stjórnarskrá. (Gripið fram í.) Þá kom m.a. fram hjá fulltrúum stjórnarandstöðunnar að hægt væri að setja inn í stjórnarskrána ákvæði með því orðalagi sem notað væri í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem stæði: Ákvæði um auðlindir sjávar séu sameign íslensku þjóðarinnar. Það verði sem sagt bundið í stjórnarskrá.

Fram kom hjá fulltrúum stjórnarandstöðunnar, sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var nú ekki hluti af, að mikilvægt væri að ljúka þessum breytingum og það væri hægt að gera með tiltölulega einföldum hætti ef vilji væri fyrir hendi, svo öllu sé til haga haldið.

Þessi vilji stjórnarandstöðunnar kom auðvitað fram á föstudaginn þegar stjórnarandstaðan lagðist gegn því að afbrigði yrðu veitt til að málið kæmist hér á dagskrá og lýsir það best ringulreið stjórnarandstöðunnar í málinu. Það er miður, hæstv. forseti, að stjórnarandstaðan skuli hafa valið þá leið að tefja með þeim hætti fyrir afgreiðslu málsins. Það sem ég vil hins vegar fá að vita er hvernig Samfylkingin og hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ætla að haga málum sínum hvað þetta atriði snertir á þeim dögum sem eftir lifa þinghaldsins. Ætlar Samfylkingin að koma í veg fyrir afgreiðslu málsins á þessu þingi?