133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[22:22]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki einungis vilji umhverfisráðherra að koma í veg fyrir að hefðarréttur myndist, heldur er það markmið frumvarpsins í sjálfu sér. Fræðimenn hafa bent á að það sé réttaróvissa á þessu sviði, á grundvelli fiskveiðistjórnarlaganna. Þegar verið er að tala um að festa eignarhald þjóðarinnar á auðlindunum í stjórnarskránni er beinlínis markmiðið að koma í veg fyrir þessa óvissu, að samræma löggjöf sem lýtur að eignarhaldi þjóðarinnar, binda eignarhald þjóðarinnar á þessum náttúruauðlindum í stjórnarskrá og koma í veg fyrir að útgerðarmenn geti hefðað og eignast beinan eignarrétt á veiðiheimildunum. Það fer ekkert á milli mála.

Varðandi undirbúning þessa máls vil ég annars vegar vísa í hina miklu vinnu auðlindanefndar þar sem var þverpólitísk sátt um að þetta skyldi vera niðurstaðan, m.a. til að eyða réttaróvissu, og svo get ég hins vegar hvað varðar Framsóknarflokkinn vísað í merkilega vinnu sem unnin var á vegum Framsóknarflokksins með aðkomu fjölda flokksmanna þar sem sáttin fólst m.a. í því að við festum eignarhaldið á fiskveiðiauðlindunum í stjórnarskránni.