133. löggjafarþing — 86. fundur,  13. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[00:50]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér fannst hv. þingmaður fjalla með athyglisverðum hætti um þjóðlendurnar. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að það hafi verið tilviljun að hæstv. forsætisráðherra dró til baka fyrsta þingmálið sem fram hefur komið og gengur út á að breyta þjóðlendu í séreign. Það gerðist í dag. Við upphaf þingfundar í dag kom yfirlýsing frá hæstv. forsætisráðherra þar sem hann dró þetta þingmál til baka, þingmál sem hefur reyndar verið lagt fram tvisvar. Það gekk út á að afhenda sem séreign til Landsvirkjunar þetta land sem búið er að dæma að sé þjóðlenda. Það væri þess vegna fróðlegt að heyra svör við því hvort þarna geti verið eitthvert samhengi á milli.

Síðan langaði mig að spyrja hv. þingmann hvort hann telji eðlilegt, ef um er að ræða þjóðareign samkvæmt þessum ákvæðum sem hér er verið að ræða, að aðilar sem fá nýtingarrétt á slíkum þjóðareignum geti eignast einhvers konar hefðarrétt á þeirri nýtingu. Og hvort honum finnist það fara saman annars vegar að tala um þjóðareign og hins vegar um einhvers konar óðalsréttindi eða hefðarréttindi til nýtingarinnar. Er það ekki þjóðareign bara í plati sem þannig hagar til um?