133. löggjafarþing — 86. fundur,  13. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[01:53]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki hvað ég á að munnhöggvast við hv. þingmann. Við erum ekki að efna að hálfu loforðið um ákvæði í stjórnarskrá, við erum að gera okkar ýtrasta til að ná því fram. Ég held að enginn velkist í vafa um að Framsóknarflokkurinn hefur lagt sig allan fram í því máli.

Hér höfum við rætt það í þinginu, ekki síst formaður og varaformaður flokksins eins og ég gat um áðan, að við legðum þunga í þetta mál. Ég held að það fari ekki fram hjá neinum að það höfum við gert og ég tel að árangurinn sé góður. Við erum búin að ná samstöðu við Sjálfstæðisflokkinn um að þetta ákvæði komi hérna inn og 1. umr. er núna að klárast, það fer núna í nefnd og mér heyrist að menn séu opnir fyrir því að skoða hvort eitthvað þurfi að breyta þar orðalagi til skýringar. Ég tel að menn geti gert það ef þeir kjósa svo í nefndinni og mér heyrist líka að aðrir þingmenn í stjórnarflokkunum hafi tekið undir það.

Ég tel að við séum að leggja allan okkar þunga í að koma þessu máli (Forseti hringir.) farsællega fyrir og ég vona að stjórnarandstaðan (Forseti hringir.) verði með í þeirri vinnu sem fram undan er.