135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[16:15]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi það sem hv. þm. Steingrímur Sigfússon sagði. Hann vísaði í sjálfsákvörðunarrétt Georgíu og Úkraínu og spurði, fyrst hann væri svona heilagur: Hvað þá með Tíbet? Þingmaðurinn hlýtur að tala gegn rökhugsun sinni þegar hann segir þetta. Georgía og Úkraína eru sjálfstæð viðurkennd ríki, fullvalda sjálfstæð viðurkennd ríki með sjálfsákvörðunarrétt og geta þar af leiðandi gerst aðilar að alþjóðasamtökum sem eru opin. NATO er með þá stefnu að vera opið fyrir lýðræðisríkjum í Evrópu.

Varðandi Tíbet, hvað sem manni kann að finnast um það mál, þá horfir allt öðruvísi við. Tíbet er ekki viðurkennt að þjóðarétti sem sjálfstæð þjóð, sjálfstætt ríki. Það er ekki einu sinni það sem Dalai Lama hefur sett fram sem kröfu. Hvað sem manni kann að finnast um ástand mála og hvernig mál hafa þróast í Tíbet þá er þar eðlismunur á, ekki bara stigsmunur heldur eðlismunur.

Varðandi Þjóðverja og Frakka er full ástæða til að taka mark á þeim. Þeir hafa heilmikið til síns máls þegar þeir fjalla um Úkraínu og Georgíu. Þeir benda á, sem er alveg full ástæða til að skoða, og spyrja hvort þessi ríki séu nógu langt komin á lýðræðisbrautinni til að þau séu tæk í félagið. En við þurfum ekki endilega að hafa þá stefnu samt að ekki skuli hafa opið fyrir þessi ríki vegna þess að við virðum sjálfsákvörðunarrétt þeirra.

Varðandi eldflaugavarnakerfi í Evrópu þá hefur ekki verið, eins og ég sagði, tekin endanleg afstaða til þess máls. Það á eftir að ræða á frekari fundum á vettvangi NATO og gefst ágætt tækifæri fyrir okkur til að tala um það mál. Ég get nefnt það hér að þetta kom ekki sérstaklega til umræðu á fundum utanríkisráðherra NATO að þessu sinni en það mun væntanlega gerast á næstunni.