138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

ríkislán til VBS og Saga Capital.

[10:54]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Forseti. Það er mjög miður að VBS banka skyldi ekki takast að vinna þannig úr sínum málum að bankinn hafi nú orðið að biðja um að honum sé skipuð stjórn og hann þarf væntanlega að leita nauðasamninga. Það sem ríkið gerði á sínum tíma í tilviki þessara minni sjálfstæðu fjármálastofnana var tvennt: Annars vegar að reyna að tryggja gríðarlega hagsmuni ríkisins upp á um 26 milljarða hjá VBS og 16 milljarða hjá Saga Capital, sem annars færu forgörðum, og hins vegar að gefa þessum fjármálastofnunum tækifæri á að reyna að vinna úr sínum málum og komast í gegnum erfiðleikana. Það var að sjálfsögðu von okkar að það mundi gerast og að hvort tveggja næðist fram, að þessum miklu hagsmunum ríkisins væri eins vel borgið og hægt væri, því að væntanlega hafa hv. þingmenn skilning á því að menn láta ekki yfir 40 milljarða fara í vaskinn án þess að reyna að bjarga þeim, og hins vegar að stofnanirnar gætu svo í framhaldinu unnið úr sínum málum og vonandi komist á réttan kjöl.

Verið er að grípa til fjölþættra aðgerða víða í fjármálakerfinu með endurreisn stóru bankanna, með endurskipulagningu sparisjóðakerfisins og með aðgerðum af þessu tagi, einu tryggingafélagi hefur verið forðað frá falli o.s.frv. Það eru engar einhlítar leiðbeiningar til aðrar en þær að reyna að gera þetta á þann hátt sem best kemur út og forðar sem mestu tjóni og það hefur verið viðmiðunin allan tímann. Þegar kom síðan að því að ákveðnar stofnanir höfðu ekki lengur starfsgrundvöll var það að sjálfsögðu Fjármálaeftirlitið sem greip inn í, eins og kunnugt er, og ekki við fjármálaráðuneytið að deila í þeim efnum hvenær það er mat þeirra yfirvalda að starfsemi sé að komast í þrot eða að slík hætta sé orðin á ferðum að það verði að grípa inn í. Ég tel að þarna hafi menn verið að gera það besta og þær ákvarðanir sem teknar voru séu allar réttlætanlegar og hafi að hluta til skilað þeim (Forseti hringir.) árangri sem til stóð. Ég frábið mér heldur ómerkilegan málflutning af því tagi að það skipti máli hvar þessi starfsemi er stunduð í landinu.