138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

peningamálastefna Seðlabankans.

[13:36]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir ágætan inngang að þessu öllu saman sem ég var að sumu, eða jafnvel mörgu leyti sammála, enda maðurinn vel menntaður í þessum fræðum eins og mér er kunnugt. Það er verið að ræða afar stórt mál á stuttum tíma þannig að við náum ekki að tæma það alveg, en ég verð að vekja athygli á einu áður en lengra er haldið og það er það fyrirkomulag sem við höfum nú á ákvörðun um vexti. Hún hefur verið falin sérstakri peningastefnunefnd Seðlabankans sem er sjálfstætt stjórnvald og það er í raun og veru liður í sjálfstæði peningastefnunefndarinnar og reyndar Seðlabankans alls að sá sem hér stendur, sem er sá ráðherra sem hefur með málefni Seðlabankans að gera, á helst ekki að senda þeirri nefnd nein skilaboð um hvaða niðurstöðu ég vil fá frá henni, hvorki úr þessum ræðustól né af öðrum vettvangi. Ég er eiginlega í þeirri einkennilegu stöðu að hvort sem ég er óánægður eða ánægður með ákvarðanir þessarar nefndar ber mér eiginlega að bera harm minn í hljóði. Auðvitað get ég samt rætt þessi mál almennt og þá umgjörð sem er kannski aðallega umræðuefnið. Í því samhengi tek ég vissulega undir að það er afar bagalegt að vera með umtalsvert hærri vexti hér en í nágrannalöndunum. Auðvitað á það sér sínar skýringar og í því samhengi má benda á að vextir hafa lækkað verulega. Þessir stýrivextir sem oftast eru nefndir eru núna 9,5% en voru 18% þegar verst var og hafa því nánast helmingast. Raunar eru það ekki þeir vextir sem mestu skipta því að mér vitanlega nýta engar lánastofnanir þennan útlánamöguleika. Þess í stað leggja þær fé inn í Seðlabankann sem fær þar líklega um 8% vexti. Þegar verðbólgan er rúm 7% eru það kannski engin ofurkjör en það breytir því ekki að það er mjög óþægilegt að vera í þeirri stöðu að verðbólga og vextir hér séu almennt mun hærri en í nágrannalöndunum. Auðvitað er ýmislegt annað sem sérstaklega sker sig úr hér, sérstaklega víðtæk útbreiðsla verðtryggingar. Yfir þetta allt saman þurfum við að setjast og reyna að finna leiðir út úr því.

Þess má geta að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er sérstaklega fjallað um slíka vinnu og Seðlabankanum hefur verið falin hún. Síðast þegar ég frétti var von á því að Seðlabankinn skilaði álitsgerð og hugsanlega tillögum um breytingar á peningastefnunni eða framtíðarumgjörð þessara mála síðar á þessu ári þó að nákvæm dagsetning hafi ekki verið gefin. Þá tel ég einsýnt að það komi til umræðu í þinginu og raunar tel ég ágæta hugmynd að reynt verði að koma upp einhverjum þverpólitískum vettvangi til að vinna úr þeim tillögum. Það er alls ekki slæm tillaga og raunar tel ég mjög æskilegt fyrir Seðlabankann að um hann sé sem mest pólitísk sátt, að hann sé eftir því sem frekast er unnt skilinn frá hinu flokkspólitíska umhverfi og rekinn á faglegum nótum og umræðan um hann sé þá einnig eins fagleg og hægt er. Ég styð þessa hugmynd hv. þingmanns og mun gera hvað ég get til að koma henni í framkvæmd.

Hvað varðar gjaldeyrishöftin er eins og kunnugt er búið að leggja fram áætlun um hvernig á að afnema þau í skrefum. Sú áætlun byggist á því að í fyrsta lagi sé innflæði gjaldeyris nægt, að gengi krónunnar sé sæmilega stöðugt og að Seðlabankanum hafi tekist að byggja upp nægilega styrkan gjaldeyrisvaraforða til að geta tekið djörf skref í að afnema höftin. Þessi skilyrði eru ekki uppfyllt núna af ástæðum sem er óþarfi að rekja og þess vegna er ekki hægt að fullyrða nákvæmlega hvenær gjaldeyrishöftin verða afnumin eða hvenær einstök skref í þá átt verða tekin. Auðvitað vonum við hið besta. Ef allt gengur vel ætti að vera hægt að afnema þessu gjaldeyrishöft mjög hratt en það er ekki í hendi núna þannig að það er betra að lofa minna en meiru.

Svo eigum við auðvitað eftir að ræða ýmislegt annað. Stóra spurningin er hvort við viljum hafa þennan gjaldmiðil áfram eða ekki. Það er nokkuð sem kemur inn á borð þingsins fyrr eða síðar og raunar þurfum við að undirbúa þá umræðu og jafnvel hefja hana sem fyrst. Það er róttækasta breytingin sem hægt er að gera á íslenskri peningastefnu og myntumhverfi og hana þurfum við að ræða. Kannski höfum við aðra umræðu um það síðar.