138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

fæðingar- og foreldraorlof.

163. mál
[14:56]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Herra forseti. Hér er á ferðinni gott frumvarp sem ég styð eins langt og það nær. Mér finnst það nefnilega ekki ganga nægilega langt í því sem mér finnst að eigi að vera forgangsatriði og það eru réttindi barnsins. Að mínu viti ber okkur að tryggja rétt barna til umönnunar foreldra sinna fyrstu níu mánuði ársins.

Það er ekki auðvelt að vera einstætt foreldri og ef hitt foreldri barnsins er vanvirkt í uppeldinu, fjarverandi eða óhæft, og fyrir því geta verið margar ástæður, t.d. mikil vímuefnaneysla eða bara almennt áhugaleysi, fær barnið ekki fulla níu mánuði í fæðingarorlofi með foreldrum sínum. Núgildandi lög um fæðingarorlof voru stórt skref, ekki bara í umönnun ungbarna og aðbúnaði heldur einnig hvað jafnréttissjónarmið varðar. Það er mikilvægt jafnréttissjónarmið að tryggja feðrum jafnt sem mæðrum jafnan rétt til fæðingarorlofs. Í undantekningartilfellum er ekki hægt að koma því við, t.d. eins og í þessu frumvarpi þegar annað foreldrið er hreinlega ekki til. Mér finnst að kerfið þurfi að búa yfir ákveðnum sveigjanleika og mennsku sem tekur tillit til sérstakra aðstæðna. Ég vil líka vekja athygli á því að jafnrétti er ekki bara jafnrétti milli kynjanna heldur líka á milli barna.

Mig langar að draga hérna upp bara mynd af ákveðnu tilbúnu dæmi. Ímyndum okkur konu sem verður barnshafandi eftir nauðgun og ákveður að eiga barnið. Á nauðgarinn að eiga jafnan rétt til fæðingarorlofs? Á hún að skilja barnið sitt eftir eða barnið þeirra eftir hjá honum í þrjá mánuði?

Annað dæmi sem ég þekki til og kemur beint úr raunveruleikanum er um unga stúlku sem ég þekki sem eignaðist barn. Faðir barnsins er því miður djúpt sokkinn í vímuefnaneyslu og hefur þau tvö ár sem barnið hefur lifað hvorki sýnt áhuga né getu til að umgangast son sinn. Þetta barn fékk eingöngu að njóta fullra samvista við eina foreldrið sem það þekkir í sex mánuði.

Ég mundi vilja sjá faglega nefnd sem tæki að sér að meta sérstök tilfelli, hvort sem fjarvera foreldris er vegna tæknifrjóvgunar eða ættleiðinga einhleypra eða nánast algjörrar fjarvistar annars foreldris af öðrum sökum. Lítið barn er kraftaverk og okkur ber að þakka fyrir hvern einasta einstakling sem fæðist og hlúa að honum sem best. Ástríkt uppeldi beggja foreldra eru kjöraðstæður en eru því miður ekki alltaf fyrir hendi. Okkur ber að tryggja barninu umönnun foreldra sinna í fulla níu mánuði sé þess frekast kostur.

Því fylgir ekki mikill aukakostnaður en ávinningurinn fyrir barn og foreldri er ómetanlegur. Ég styð því þetta frumvarp og þakka hv. flutningsmönnum fyrir að leggja það fram. En ég mundi vilja ganga lengra og tryggja rétt allra barna sem fæðast á Íslandi til samvistar við foreldri í níu mánuði. Ég vil taka undir það sem stendur í greinargerðinni með frumvarpinu um að beina því til félagsmálanefndar að skoða þetta sérstaklega í framhaldinu og sjá hvernig hægt er að taka með sanngjörnum hætti á undantekningartilfellum.